Ársreikningur tæknifyrirtækisins Controlant fyrir árið 2023 var lagður fram á aðalfundi félagsins í dag.
Þar kemur fram að tekjur fyrirtækisins jukust á milli ára úr 133 milljónum dala árið 2022 í 185 milljónir dala á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu Controlant en þar segir að á aðalfundinum hafi Guðmundur Árnason fjármálastjóri kynnt helstu rekstrarniðurstöður sem sýna að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir hafi numið 105 milljónum dala á síðasta ári, sem er umtalsverð aukning frá árinu á undan þegar hagnaðurinn nam 66 milljónum dala.
Tekjur af kjarnastarfsemi sem eru tekjur ótengdar Covid-19 jukust um 79% á milli ára, úr 9 milljónum dala árið í 16 milljónir dala árið 2023.
Segir einnig að Controlant hafi tryggt sér 80 milljóna dala fjármögnun á síðasta ári til með það fyrir augum að styðja við vöruþróun og markaðssókn fyrirtækisins.
Á sama tíma varð samdráttur í eftirspurn eftir Covid-19-bóluefni, sem varð þess valdandi að félagið greip til aðgerða til þess að auka hagkvæmni í rekstri sínum. Aðgerðirnar fólu m.a. í sér fækkun starfsfólks og almennar sparnaðaraðgerðir í rekstri.
Allir núverandi stjórnarmenn voru endurkjörnir ásamt varamönnum. Eftir fundinn sitja eftirfarandi í stjórn félagsins: Søren Skou stjórnarformaður, Ásthildur Otharsdóttir, varastjórnarformaður, Kristín Friðgeirsdóttir, Trausti Þórmundsson og Steve Van Kuiken ásamt varastjórnarmönnunum Magnúsi Magnússyni og Svanhvíti Gunnarsdóttur.