Íslandspóstur (ÍSP) er ekki tilbúinn til þess að svara því hvaða lagaheimild liggur að baki því að fyrirtækið sóttist eftir og fékk bætur frá hinu opinbera vegna pakkaþjónustu í trássi við lög, enda voru viðskiptalegar forsendur að baki þjónustuveitingunni og fjöldi samkeppnisaðila.
Samkvæmt lögum á ÍSP rétt á framlagi frá hinu opinbera vegna þeirrar alþjónustu sem ríkisfyrirtækinu ber að veita, svo framarlega sem sýnt er fram á að þjónustan sé ósanngjörn byrði og að viðskiptalegar forsendur séu ekki fyrir veitingu þjónustunnar. Það felur í sér að fyrirtæki myndi ekki sinna þjónustunni án lagaskyldu.
Árið 2023 lagði ÍSP til við Byggðastofnun – sem er eftirlitsaðili póstþjónustu á Íslandi – að pakkaþjónusta innanlands vegna pakka að 10 kg yrði felld úr alþjónustuskyldu, enda hefði samkeppni á þeim markaði aukist svo mjög að ekki væri lengur þörf á alþjónustuveitanda vegna hennar. Byggðastofnun féllst á ósk ÍSP, sem hélt áfram að veita sömu þjónustu vegna pakka og áður.
Athygli vekur þó að ÍSP virðist hafa sóst eftir og fengið greiddar bætur vegna pakkaþjónustu allt þar til hún var felld úr alþjónustunni. Ljóst má vera að viðskiptalegar forsendur hafi verið til staðar vegna pakkaþjónustunnar áður en ÍSP lagði fram beiðni sína og að fyrirtækið hafi þannig þegið bætur þrátt fyrir þær forsendur, í trássi við lög og með tilheyrandi röskun á samkeppnismarkaði.
Morgunblaðið óskaði eftir skýringum frá ÍSP á því hvers vegna fyrirtækið sóttist eftir endurgjaldi í ljósi þess að viðskiptalegar forsendur hafi verið til staðar. Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri ÍSP svaraði því til að fyrirtækið hefði skilað inn umsókn „í samræmi við þær reglur sem eru í gildi“ og vísaði til ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar, sem áður var eftirlitsaðili póstþjónustu, frá árinu 2020.
Blaðamaður spurði í kjölfarið til hvaða reglna hún vísaði og nákvæmari upplýsinga um til hvers hún vísaði í téðri ákvörðun, en ákvörðunin telur 58 blaðsíður. Jafnframt var bent á að lögin væru alveg skýr um að Íslandspóstur ætti ekki rétt á endurgjaldi ef viðskiptalegar forsendur væru til staðar – þær hefðu varla myndast á einni nóttu þegar pakkaþjónusta var felld úr alþjónustunni.
Ekki fengust nákvæmari svör frá ÍSP, aðeins að blaðamaður gæti fundið svör við spurningum sínum hjá viðeigandi eftirlitsaðilum. Óljóst er hvernig Byggðastofnun ætti að svara því til hvers ÍSP vísaði í fyrra svari.
Morgunblaðið spurði ÍSP jafnframt hve hátt endurgjald fyrirtækið hefði þegið vegna pakkaþjónustu síðustu fimm árin sem það var veitt. Þórhildur vísaði í svari sínu til ákvarðana eftirlitsaðila, en upplýsingarnar er ekki að finna þar. Blaðamaður benti á þetta og ítrekaði ósk sína eftir upplýsingunum, og tók þar fram að ekki væri óskað eftir upplýsingum um heildarkostnað, aðeins endurgjald, sem varla væru viðkvæmar viðskiptaupplýsingar. Ekki fengust heldur svör við þeirri fyrirspurn.
Þess má geta að í viðauka við lög um póstþjónustu sem fjallar um endurgjald vegna alþjónustu kemur fram að þar sem slíkar bætur feli í sér tilfærslu fjár, skuli meðal annars tryggja að þær séu gagnsæjar. ÍSP hefur fengið milljarða í framlög úr ríkissjóði frá árinu 2020, það má því ljóst vera að fjárframlög sem fyrirtækið átti ekki rétt á vegna pakkaþjónustu á virkum markaðssvæðum telja í hundruðum milljóna ef ekki meira.
Erfitt er að túlka svör forstjóra ÍSP, eða öllu heldur svarleysi, öðruvísi en að fyrirtækið hafi brotið lög þegar fyrirtækið sóttist eftir og þáði endurgjald vegna pakkaþjónustu áður en þjónustan var felld út úr alþjónustu.