Bílastæðafyrirtækið Base parking ehf., sem rak samnefnda þjónustu fyrir farþega sem fóru um Keflavíkurflugvöll, hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Hefur nafni félagsins verið breytt í Siglt í stand ehf.
Gjaldþrotaúrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness 8. maí, en auglýsing um gjaldþrotið var birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Hefur vefsíðu fyrirtækisins einnig verið lokað.
Fyrirtækið bauð meðal annars upp á þá þjónustu að sækja bifreiðar viðskiptavina sem voru á leið erlendis og geyma þær á bílastæði fyrirtækisins á Ásbrú.