Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, segir viðbrögð viðskiptalífsins í Pittsburgh við komu Icelandair til borgarinnar vera sterk.
Dæmi um það sé frábær aðsókn að hádegisverðarfundi með fulltrúum viðskiptalífsins daginn eftir að Icelandair lenti í borginni í fyrsta skipti á fimmtudaginn í síðustu viku.
„Þarna voru nær öll helstu fyrirmenni úr atvinnulífinu með fulltrúa. Vilji þeirra til að styðja við þessa beinu flugleið til Evrópu kom mjög sterkt fram í máli þeirra sem ég ræddi við. Þau vita að þetta skiptir almenning og viðskiptalífið máli,“ segir Tómas.
Í borginni hafa mörg stórfyrirtæki höfuðstöðvar sínar. Nægir þar að nefna matvælaframleiðandann Heinz og álrisann Alcoa.
Pittsburgh er nýjasta viðbótin í leiðakerfi Icelandair og jafnframt sextánda borgin sem flugfélagið flýgur til í Norður-Ameríku.
Spurður að því hvernig valið á áfangastaðnum komi til segir Tómas að Icelandair búi yfir gríðarlegu magni af gögnum sem hallast sé að.
„Við vitum t.d. nákvæmlega hve margir hafa ferðast til Evrópu frá Pittsburgh á síðustu árum. Þá vitum við hve margir fara í gegnum aðra áfangastaði frá Pittsburgh til Íslands. Út frá þessum gögnum og fleirum vitum við hverju má búast við.“
Aðeins eitt annað flugfélag, British Airways, BA, býður upp á beint flug til Evrópu frá Pittsburgh. Þjónusta þess hófst aftur á síðasta ári eftir stutt stopp vegna faraldursins.
„Þessi markaður hér úti er lagskiptur. Hér eru mörg bandarísk flugfélög að fljúga inn en ekkert er með yfirburðastöðu og bara eitt sem flýgur beint til Evrópu. Keflavík er því mjög góður kostur fyrir íbúa Pittsburgh. Sömuleiðis er það álitlegur kostur fyrir Evrópubúa að fljúga til Pittsburgh og stoppa í 1-2 daga eða lengur á Íslandi á leiðinni yfir hafið,“ segir hann.
Spurður um stoppið á Íslandi og þá hvata sem boðið er upp á fyrir ferðalanga segir Tómas að almennt séð sé Ísland mikill hvati í sjálfu sér.
„Það þekkja allir íslenska náttúrufegurð. Einnig höfum við fargjöldin þannig að fólk geti stoppað á Íslandi í allt að sjö nætur án hækkunar. Í gegnum tíðina hefur þetta verið öflugt markaðstækifæri fyrir okkur. Fólk stoppar kannski í 1-2 nætur og fær smjörþefinn af landinu. Markaðsrannsóknir sýna svo að fólkið kemur gjarnan aftur og stoppar þá í 7-10 daga.“
Pittsburgh-flugvöllur er mjög stór en gengur nú í gegnum miklar breytingar sem mun ljúka í lok næsta árs.
„Þetta var miðstöð fyrir US Airways á sínum tíma, sem skýrir stærðina. Núna eru þau að minnka völlinn og gera hann hagkvæmari í rekstri og uppfæra útlitið og aðstöðuna.“
Tómas segir að almennt gangi markaðsstarf Icelandair út á að gera Keflavíkurflugvöll að eins góðri tengimiðstöð og mögulegt er.
„Ef við tökum keppinaut okkar BA sem dæmi þá flýgur það til Heathrow. Það er risastór flugvöllur og oft tekur langan tíma að tengja þar í gegn. Sumir farþegar eru smeykir við það og kjósa þá frekar að fara í gegnum lítinn og þægilegan flugvöll eins og í Keflavík. Það er lykilsamkeppnisforskot fyrir okkur. Svo búumst við fastlega við því að 20-25% farþega muni stoppa á Íslandi á leið á milli meginlandanna. Það er nokkuð sem British Airways getur ekki boðið upp á.“
Spurður um upplifun sína af borginni segir Tómas hana hafa komið sér mjög á óvart.
„Ég var búinn að lesa mikið um áfangastaðinn enda gerum við djúpa markaðsrannsókn áður en við tökum ákvörðun um flug. Þetta er stór fjárfesting og við verðum að vera viss. Ég hafði heyrt af ríkulegu listalífinu í borginni, sögunni, hvernig borgin þróaðist frá því að vera mikil iðnaðarborg yfir í að vera miðstöð tækni eins og hún er í dag. Ég hafði heyrt um hvernig hægt væri að ganga á alla helstu staði, á íþróttavelli, söfn, veitingastaði o.s.frv. og það stóðst allt. Það verður lítið mál að markaðssetja þessa borg fyrir Íslendinga. Þetta er ekta borg til að fara í langa helgarferð og upplifa eitthvað nýtt auk þess sem hún er mjög falleg og lifandi,“ segir Tómas.
Nánar um tíðni þjónustunnar segir Tómas að módelið sé hið sama og í Raleigh Durham.
„Við byrjum að fljúga fjórum sinnum í viku. Við byrjum í maí þegar sumartraffíkin hefst og endum í lok október, sem er tiltölulega öruggt plan. Við vitum að það er mikil eftirspurn og það verður lítið mál að fylla vélarnar. Svo skoðum við meiri þjónustu í framhaldinu. Tveimur árum eftir að við byrjuðum í Raleigh Durham er hún nú orðin heilsársáfangastaður með daglegt flug yfir sumartímann. Við getum breytt þessu hratt um leið og við sjáum að við erum búin að kveikja í markaðnum.“
Christina Cassotis forstjóri flugvallarins segir í samtali við Morgunblaðið að samtalið við Icelandair hafi hafist á ráðstefnu í Suður-Afríku fyrir níu árum.
„Við vorum mjög áhugasöm um að fá gamalgróið og traust flugfélag eins og Icelandair til okkar vegna tengimöguleikanna inn í Evrópu,“ segir Cassotis.
„Það er fullt af evrópskum fyrirtækjum með viðskipti hér og um leið og við aukum þjónustuna eykst farþegafjöldinn,“ segir Cassotis og vonast til að Icelandair muni bjóða þjónustu sína á heilsársgrundvelli í fyllingu tímans. „Við viljum að þetta virki og gangi vel til framtíðar.“