82 sagt upp störfum hjá Icelandair í dag

Icelandair hefur gengið frá starfslokum við 82 starfsmenn í dag. Um er að ræða starfsfólk úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. 

Á árunum 2021-2023 réð félagið og þjálfaði um 2.500 starfsmenn, tók fjölda flugvéla aftur í rekstur auk þess að innleiða 13 nýjar flugvélar í flotann. Góður árangur náðist í hraðri uppbyggingu félagsins eftir heimsfaraldur og skipti uppbyggingin sköpum fyrir viðspyrnu ferðaþjónustunnar og þar með íslenskt hagkerfi, segir í tilkynningunni. 

Liður í hagræðingaraðgerðum 

Í tilkynningunni segir að nú sé aðaláhersla félagsins aftur á móti á að auka skilvirkni í rekstrinum í kjölfar þessa mikla uppbyggingartímabils. Nú sé því unnið að fjölmörgum aðgerðum til að styrkja samkeppnishæfni félagsins enn frekar.

Einn liður í hagræðingaraðgerðunum sé þessi fækkun starfsfólks í hinum ýmsum deildum og starfsstöðvum Icelandair.

„Það er leitt að sjá á eftir góðu fólki og um erfiða ákvörðun er að ræða. Uppbygging félagsins eftir heimsfaraldurinn var mikið átaksverkefni sem stór hópur fólks kom að en nú hefur þessi hraði vöxtur náð ákveðnu jafnvægi. Auk þess standa fyrirtæki á Íslandi frammi fyrir mjög krefjandi rekstrarumhverfi sem hefur einkennst af hárri verðbólgu og mikilli hækkun launakostnaðar, umfram það sem gerist í samkeppnislöndum okkar,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í tilkynningunni og bætt við:

„Jafnframt ríkir óvissa um hvernig aðstæður á mörkuðum þróast, ekki síst vegna endurtekinna eldgosa á Reykjanesi. Það er því nauðsynlegt að velta við öllum steinum til að draga úr kostnaði og auka tekjur með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfni og bæta afkomu félagsins til framtíðar. Ég vil þakka öllu því góða fólki sem nú lætur af störfum fyrir þeirra mikilvæga framlag til Icelandair og óska þeim alls hins besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK