Norðmenn uggandi vegna dóms í máli Íslands

Dómur EFTA-dómstólsins í máli Íslands vegna breytilegra vaxta á húsnæðislánum …
Dómur EFTA-dómstólsins í máli Íslands vegna breytilegra vaxta á húsnæðislánum skekur norskar fjármálastofnanir og kveður Finans Norge þörf á endurskoðun án tafar. mbl.is

Samtök norskra fjármálafyrirtækja, Finans Norge, benda á að í kjölfar nýfallins dóms EFTA-dómstólsins – sem fjallar um málefni þeirra þriggja ríkja Fríverslunarbandalags Evrópu sem einnig tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu, Íslands, Noregs og Liechtenstein – sé nauðsynlegt að skoða og breyta vaxtaskilmálum húsnæðislána í Noregi án tafar.

Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilmálar lána með breytilegum vöxtum á Íslandi væru óskýrir – hinn almenni lántakandi skildi ekki þá útreikninga sem vextirnir byggðu á.

„EFTA-dómstóllinn situr á húsnæðislánasprengju,“ skrifuðu þau Marte Eidsand Kjørven og Vebjørn Wold, talsmenn Réttarfarsstofnunar um einkamál, Institutt for privatrett, í Noregi í grein á réttarvefnum Rett24 í fyrra og fjölluðu þar um íslenska vaxtamálið sem var á leið til EFTA-dómstólsins og snerist um heimild bankanna til að breyta vöxtum húsnæðislána.

Skilmálar fljótt á litið ógildir

Sækjandi málsins fyrir dómstólnum, Ingvi Hrafn Óskarsson, krafðist þess að bankarnir héldu sig við skiljanlega og fyrirsjáanlega aðferð við vaxtabreytingar í stað óljósra tilvísana til vaxta á markaði almennt. Á þetta féllst EFTA-dómstóllinn.

„Afleiðingar dómsins eru fljótt á litið þær að skilmálar til að hnika breytilegum vöxtum í norskum íbúðalánasamningum – einn grundvallardrifkraftur norsks fjármálakerfis – eru ógildir séu samningalögin túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan. Þetta táknar ekki aðeins að bankarnir þurfi að taka upp nýja aðferð sem felur í sér skýrari forsendur breytinga heldur einnig að skilmálar í þegar gerðum og fullnustuðum samningum eru ógildir,“ segir Wold við Rett24.

Talsmenn Finans Norge kveðast þegar fyrir helgi hafa hafist handa við að kynna sér afleiðingar dómsins auk þess sem þeir benda á að norska kerfið – hvað breytilega vexti snertir – feli ekki í sér ótakmarkaðan breytileika vaxtanna.

Kemur ekki á óvart

„Vaxtabreytingar af bankans hálfu eru ákvarðaðar í samningnum milli bankans og viðskiptavinarins þar sem skilyrði bankans um breytingarnar eru raktar,“ segir Tom Staavi, upplýsingafulltrúi Finans Norge, við Rett24 og bendir á að þeir stöðluðu samningsskilmálar sem nú gildi hafi í upphafi byggst á samningi við þáverandi umboðsmann neytenda, forbrukerombudet eins og hann kallaðist.

Telur Staavi að dómur EFTA-dómstólsins kalli á skýringar á núgildandi vaxtaskilmálum og því hvaða kringumstæður geti leitt til vaxtabreytinga.

„Dómurinn kemur ekkert á óvart þar sem hann fylgir að mörgu leyti þeim ábendingum sem þegar hafa komið fram frá ESA [Eftirlitsstofnun EFTA] og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þess vegna hefur Finans Norge þegar hafist handa við að skoða málið og fara yfir orðalag í stöðluðum lánaskilmálum norskra fjármálastofnana,“ segir Staavi að lokum.

Rett24
Rett24-II (rætt við Wold)
Dagens Næringsliv (maí 2023)

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka