„Til lengri tíma mun verðlagningin skila sér þannig að það sem er ódýrt mun að lokum ná réttu verði þegar markaðsaðstæður eru réttar,“ segir Valdimar Ármann, fjárfestingastjóri hjá A/F rekstraraðila, en hann var gestur í Dagmálum ásamt Snorra Jakobssyni, eiganda Jakobsson Capital. Þeir fóru yfir stöðu og horfur á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðnum.
„Sprota- og vaxtarfyrirtækin hafa fangað athygli hjá fjárfestum en mestu tækifærin liggja ekki endilega þar,“ bendir Snorri á.
Markaðsaðstæður hafa verið erfiðar að undanförnu en hlutabréfavísitala Aðalamarkaðarins hefur lækkað um 5,8% það sem af er ári.
Valdimar segir að margt spili þar inn í, meðal annars hátt vaxtastig og að útgáfur á markaði hafi tekið pening til sín.
„Fólk er að fá mjög góða ávöxtun á bankabókum og stuttum fyrirtækjavíxlum og fjárfestar halda að sér höndum og bíða. Verðlagning á markaði er ágæt í flestum fyrirtækjum og lítur ekkert illa út heilt yfir. Alvotech hefur tekið pening til sín í hlutafjárútboðum, lífeyrissjóðir hafa keypt Heimstaden fyrir tugi milljarða, Controlant er að taka til sín pening, Play í hlutafjárútboði, Oculis skráð á markað og svo lengi mætti telja,“ segir Valdimar.
Hann bendir á að salan á Íslandsbanka sé líka risastórt útboð sem hangir yfir markaðnum.
„Skilaboðin síðasta haust voru að það ætti að selja hann sem fyrst og klára það í haust en það hefur verið að frestast. Menn vita að þetta er að koma og þá að sjálfsögðu hinkra menn,“ bætir Valdimar við.
Áskrifendur geta horft á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.