Árni Oddur og Arion banki ná sáttum

Árni Oddur Þórðarson fjárfestir.
Árni Oddur Þórðarson fjárfestir. Baldur Kristjáns

Sátt hefur náðst á milli Arion banka og Árna Odds Þórðarsonar, fjárfestis og fv. forstjóra Marels, um fullnaðaruppgjör á lánum sem voru veitt með veði í hlutum í Eyri.

Þetta staðfestir Árni Oddur í samtali við Morgunblaðið.

Samhliða þeirri sátt hefur fjárfestingarfélagið 12 Fet ehf., sem Árni Oddur veitir stjórnarformennsku, átt viðskipti með hluti í Eyri. Eftir viðskiptin er bankinn ekki hluthafi í Eyri og 12 Fet fara með 9.4% eignarhlut.

Arion banki leysti sem kunnugt er til sín um 5% hlut í Eyri í byrjun nóvember sl. eftir að hafa gert veðkall í láni Árna Odds hjá bankanum. Eyrir var þá, og er enn, stærsti hluthafinn í Marel en Árni Oddur, sem þá hafði gegnt starfi forstjóra Marel í áratug, lét í kjölfarið af störfum. Þá leysti Arion jafnframt til sín 4,4% hlut Þórðar Magnússonar (föður Árna Odds) í Eyri í tengslum við veðkallið.

Stofnar ný fjárfestingafélög – þekkt fólk í hluthafahópnum

Morgunblaðið greindi frá því í lok janúar sl. að Árni Oddur hefði stofnað nýtt fjárfestingafélag, 6 Álnir ehf., með þátttöku annarra fjárfesta. Þá hefur hann stofnað annað félag, fyrrnefnt félag sem ber nafnið 12 Fet ehf., með sömu fjárfestum. Tilgangur félaganna er eignarhald utan um samanlagt tæplega 24% eignarhlut í Eyri Invest.

Þegar greint var frá stofnun 6 Álna í lok janúar kom fram að fjárfestar í félaginu kæmu víða að úr íslensku atvinnulífi og hefðu margir átt samleið með þeim feðgum, Árna Oddi og Þórði, um árabil.

Bogi Þór Siguroddsson er hér fremstur á myndinni.
Bogi Þór Siguroddsson er hér fremstur á myndinni. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson
Kristján Loftsson er meðal fjárfesta í fjárfestingafélögum sem leidd eru …
Kristján Loftsson er meðal fjárfesta í fjárfestingafélögum sem leidd eru af Árna Oddi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson


Þar má nefna Bóksal ehf., sem er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, oft kenndum við Fagkaup, Kristján Loftsson í gegnum Hval hf., Guðbjörgu Matthíasdóttur og fjölskyldu hennar, sem eru stærstu eigendur Ísfélagsins, bræðurna Hólmstein og Pétur Björnssyni, oft kenndir við Ísfell, og félag í eigu Jakobs Valgeirs, útgerðarmanns og fjárfestis.

Guðbjörg Matthíasdóttir, stærsti eigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, og fjölskylda hennar …
Guðbjörg Matthíasdóttir, stærsti eigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, og fjölskylda hennar er meðal fjárfesta. Ljósmynd/Nasdaq


Þá eru aðrir fjárfestar í félögunum Októ Einarsson, fjárfestir og fyrrum stjórnarformaður Ölgerðarinnar, Guðmundur Ingi Jónsson og Þorlákur Traustason, eigendur Kjöls fjárfestingarfélags, Guðni Rafn Eiríksson, oftast kenndur við Epli, Sigurður Bollason fjárfestir ásamt Nönnu Björk Ásgrímsdóttir og Gunnar Hendrik Gunnarsson, Birgir Örn Birgisson, fv. framkvæmdastjóri Dominos á Islandi, og bróðir hans Jón Óttar Birgisson, Jón Felix Gíslason og Guðmundur Auðunsson í gegnum fjárfestingarfélagið Fjörubrú, Guðmundur Ásgeirsson, oftast kenndur við Nesskip, og Þorsteinn Sverrisson og Finnur Björn Harðarsson með fleiri útgerðarmönnum og fjárestum.

Þakklátur fyrir traust fjárfesta

„Ég er ánægður með það að hafa náð sátt við bankann. Nú get ég einbeitt mér að verðmætasköpun til framtíðar,“ segir Árni Oddur spurður nánar um þessi tíðindi.

Við stofnun 6 Álna í lok janúar sl. sagðist Árni Oddur vera þakklátur fyrir það traust sem samferðafólk þeirra feðga úr viðskiptalífinu hefði sýnt með því að ganga til liðs við nýtt félag. Árni Oddur vísar til þeirra orða aftur nú.

„Við njótum  trausts hjá því fólki sem hefur áður starfað með okkur“ segir hann.

Aðspurður segir hann að stjórn Eyris hafi verið afdráttarlaus um stuðning við yfirtökutilboð bandaríska félagsins John Bean Technologies (JBT) á Marel. Það geri þeir feðgar einnig svo og meðfjárfestar í 6 Álnum og 12 fetum. Líkt og komið hefur fram hafa stjórnir JBT og Marel gert slíkt hið sama.

Sameinað félag er ætlað að bera nafnið JBT Marel, og með hlutabréf skráð í New York með tvíhliða skráningu bréfa félagsins í Kauphöllinni á Íslandi. 

Munu fara með 39% eignarhlut í Eyri Invest

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins nemur heildarhlutafé félaganna tveggja um átta milljörðum króna. Þar af nemur nýtt hlutafé um fimm milljörðum króna.

Árni Oddur, verður í gegnum samnefnt eignarhaldsfélag sitt, stærsti einstaki hluthafi 12 Feta, líkt og við stofnun 6 Álna sem greint var frá í lok janúar. Eignarhlutur 6 Álna í Eyri Invest er 14.2%.

Þórður Magnússon fer með 15% eignarhlut í Eyri og er því samanlagður eignarhlutur sem þeir feðgar fara fyrir um 39% í Eyri sem þeir stofnuðu saman árið 2000.

Ráðgjafar við viðskiptin, voru ARMA Advisory og AX Lögmannsþjónusta. Eins og ViðskiptaMogginn fjallaði um í síðustu viku er ARMA Advisory nýtt ráðgjafafélag í eigu Marinós Arnars Tryggvasonar, fv. forstjóri Kviku banka, og Atla Rafns Björnssonar, fv. yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK