„Markmiðið er að fjölga afgreiðslustöðum og vera með þéttara net. Fólk vill fá að velja,“ segir Óskar Jónsson, einn eigenda Smáríkisins.
Fyrirtækið hefur nú fjölgað afhendingarstöðum sínum í þrjá. Hægt er að nálgast áfengi í svokölluðum sendiráðum Smáríkisins í Fellsmúla, Miðhrauni í Garðabæ og í Hraunbæ 102, við hliðina á sjoppunni Skalla. Opið er frá hádegi til kl. 23 á kvöldin fimm daga vikunnar en til miðnættis föstudaga og laugardaga. Þá lofar fyrirtækið hraðri heimsendingu á áfengi með Volt.
Ljóst er að netverslanir með áfengi blása nú til stórsóknar. Sem kunnugt er kynnti Hagkaup í síðustu viku áform um að hefja sölu á áfengi í verslunum sínum í næsta mánuði. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa forsvarsmenn bæði Krónunnar og Bónuss verið að skoða innreið á þennan markað.
Frumkvöðullinn Arnar Sigurðsson í Sante stefnir að því að opna þúsund fermetra afgreiðslulager í Skeifunni í haust. Þar verður mun meira vöruúrval en nú er í boði og lægra verð. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að viðskiptavinir geti pantað áður en þeir koma eða gert það á staðnum. Þeir fá svo vörurnar afhentar í sérstökum skápum. „Í stað þess að vera með ríkisstarfsmenn í vinnu þarna verðum við með kínverska róbóta. Ég held að menn verði ekki ósáttari við að kínverskir róbótar afgreiði sig en íslenskir ríkisstarfsmenn,“ segir hann.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, 30. maí.