Síminn hf. hefur undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í Noona Iceland ehf. sem heldur utan um innlendan rekstur Noona Labs ehf.
Dótturfyrirtæki Símans, Síminn Pay, mun stýra sameiginlegum rekstri fyrirtækjanna ásamt því að þróa nýjar lausnir Símans Pay inni í vistkerfi Noona.
„Með kaupum Símans á einu öflugasta markaðstorgi Íslands, Noona, teljum við Símasamstæðuna styrkja sig enn frekar sem eitt öflugasta þjónustufyrirtæki landsins,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í tilkynningu.
„Við fögnum þessu öfluga samstarfi við Símann. Í þessum nýja búningi verður hægt að taka næstu stóru skref við uppbyggingu Noona, sem leikur orðið lykilhlutverk í fjölbreyttum viðskiptum landsmanna. Við erum hrikalega spennt fyrir framhaldinu og hlökkum til að halda áfram að þjónusta íslensk fyrirtæki í samstarfi við Símann,“ er haft eftir Kjartani Þórissyni, framkvæmdarstjóri Noona Labs.
Þá kemur fram að Noona hafi verið valin vinsælasta vefþjónusta landsins í árlegri mælingu Maskínu og var valið app ársins 2023. Lausnir Noona og SalesCloud voru nýlega samþættar og bjóða nú upp á meðal annars bókunarkerfi fyrir þjónustuaðila og veitingastaði, sölukerfi, gjafabréfalausnir svo dæmi séu tekin.