Heimila kaup Festi á Lyfju

Lyfja rekur fjölmargar verslanir víða um landið.
Lyfja rekur fjölmargar verslanir víða um landið. Ljósmynd/Aðsend

Festi og Samkeppniseftirlitið hafa undirritað sátt vegna kaupa Festi á öllu hlutafé í Lyfju hf. Í sáttinni eru sett fram ákveðin skilyrði sem eiga að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum sem samruninn myndi annars leiða til. Með sáttinni er Festi því heimilt að framkvæma samruna við Lyfju.

Festi er móðurfélag Krónunnar, N1 og Elko, en Lyfja á og rekur 45 lyfja- og heilsuvöruverslanir undir merkjum Lyfju og Heilsuhússins. Fyrirtækið á einnig Heilsu ehf., en það er heildsala og framleiðslufyrirtæki á ýmsum lífrænt ræktuðum matvörum, vítamínum, hreinlætis- og snyrtivörum.

Festi rekur meðal annars N1 og Krónuna, en í næsta …
Festi rekur meðal annars N1 og Krónuna, en í næsta mánuði mun Lyfja einnig bætast við fyrirtækjasafn þess. mbl.is/Árni Sæberg

Í tilkynningu til Kauphallarinnar eru nokkur skilyrði vegna samrunans talin upp en þau tengjast að mestu rekstri Heilsu ehf. Þá er eitt skilyrði um að ekki verði ákvæði í ráðningarsamningum við lyfjafræðina fyrirtækisins um samkeppnisbann eða aðrar samkeppnishömlur.

Skilyrðin eru eftirfarandi samkvæmt tilkynningunni:

  • Festi skuldbindur sig til að tryggja að ráðningarsamningar á milli Lyfju og lyfjafræðinga sem starfa hjá félaginu innihaldi ekki ákvæði um samkeppnisbann eða aðrar samkeppnishömlur.
  • Festi skuldbindur sig til að tryggja rekstrarlegan aðskilnað vegna starfsemi Heilsu ehf. („Heilsa“). Í því felst m.a. að Heilsa skal áfram rekið sem sjálfstæður lögaðili og öll starfsemi félagsins, viðskiptaleg ákvörðunartaka og dagleg stjórnun þess verði aðskilin frá starfsemi annarra dótturfélaga Festi. Jafnframt tekur sáttin til þess að rekstur Heilsu fari fram í húsnæði sem aðskilið verður frá starfsemi tiltekinna dótturfélaga Festi og að aðgreining sé einnig tryggð með aðgangsstýringu að tölvu- og upplýsingakerfum Heilsu. Festi verður þó heimilt að veita Heilsu skilgreinda stoðþjónustu enda fari veiting slíkrar þjónustu ekki gegn markmiðum sáttarinnar. Þá er kveðið á um nánar tilgreind skilyrði varðandi skipan stjórnar Heilsu.
  • Festi skuldbindur sig til að tryggja að Heilsa selji þeim smásöluaðilum sem eftir því leita vörur í heildsölu á viðskiptalegum grunni. Verður Heilsu skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim smásöluaðilum sem kaupa vörur af félaginu í heildsölu. Þá er Heilsu skylt að halda trúnað um upplýsingar er varða viðskiptavini þess og gæta þess að viðkvæmar upplýsingar fari ekki til annarra félaga í samstæðu Festi eða til keppinauta viðskiptamanna Heilsu.
  • Skilyrði varðandi Heilsu, sbr. punkta 2 og 3 að framan, falla úr gildi að fimm árum liðnum frá undirritunardegi sáttarinnar, 14. júní 2024.

Tekið er fram að á næstu vikum muni Festi og SID ehf., sem er seljandi Lyfju, undirbúa afhendingu Lyfju og greiðslu kaupverðsins, en stefnt er að því að hún fari í gegn á fyrri hluta júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK