Kristinn Árni L. Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide, segist alls ekki geta tekið undir það að kolefnisbinding fyrirtækisins sé fölsk syndaaflausn sem dragi úr vilja þjóðarinnar til að draga úr losun koltvíoxíðs.
Vísar hann til umfjöllunar Heimildarinnar og skoðanaskrifa blaðamanns miðilsins um fyrirtækið.
„Það er sjónarmið sem einungis aðilar á jöðrum hins pólitíska áss hafa hingað til tekið undir og það eru jafnframt þau öfl sem vilja sem minnst gera í þessum málum, þó af ólíkum hugmyndafræðilegum ástæðum sé,“ segir Kristinn í tilkynningu sem barst mbl.is.
Hann tekur fram að hann sé ýmislegt sem hann sé sammála greinarhöfundum um og nefnir sem dæmi mikilvægi þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að möguleg kolefnisbinding komi ekki í staðinn fyrir að draga úr því.
„Ástæða þess að Running Tide hættir starfsemi er ekki þessi gagnrýni sem Heimildin fjallar um í dag heldur erfitt fjárfestingarumhverfi í kjölfar mikilla vaxtahækkana. Þarna er um að ræða sprotafyrirtæki sem átti ekki að skila hagnaði fyrir en eftir fjöldamörg ár og það er þyngra en áður fyrir þau að leita á náðir fjárfesta,“ segir Kristinn í tilkynningunni.
Alls störfuðu 14 manns hjá fyrirtækinu á Íslandi, en þeim var öllum sagt upp 31. maí. Í gær var svo tilkynnt um að allri starfsemi fyrirtækisins yrði hætt.