57 flugmönnum Icelandair hefur verið sagt upp. Uppsagnirnar tengjast árstíðasveiflum flugfélagsins, en mun umfangsmeiri flugáætlun er yfir sumartímann en á veturna.
Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Icelandair, í samtali við mbl.is.
Á föstudaginn tilkynnti flugfélagið fyrirhugaðar uppsagnir. Flugmennirnir 57 munu láta af störfum 1. október og munu 26 flugstjórar færast í stöðu flugmanna tímabundið.
Flugfélagið gerir ráð fyrir því að hægt verði að bjóða flugmönnunum starf aftur næsta vor.
„Þetta er liður í því að aðlaga mönnun flugmanna að flugáætlun okkar í vetur. Við erum að fækka í hópnum yfir veturinn og síðan stækkar flugáætlunin okkar í vor, þá gerum við ráð fyrir því að geta boðið þessum flugmönnum störf á ný,“ segir Ásdís.
Um 600 flugmenn starfa hjá Icelandair með þessum 57 meðtöldum.