Þóroddur Bjarnason
Anton Már Egilsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis, segir að netþrjótar séu nú farnir að beina spjótum sínum að börnum.
„Ein aðferðin, sem þrjótarnir eru farnir að nota, er að ráðast gegn börnum sem sýnir hversu mikið miskunnarleysi og harka er komin í þennan heim. Börn hlaða alls konar búnaði í síma sína og nota síðan sameiginlegt þráðlaust net heimilisins þar sem traust ríkir. Sumt ungt fólk deilir jafnvel tölvu með öðrum. Ef þrjóturinn nær að plata átta ára gamlan krakka til að hlaða niður appi sem skráir síðan allt sem gerist á þráðlausa netinu, þá er hann mögulega kominn með upplýsingar sem duga til að ráðast gegn foreldri. Það er svo aftur kannski forstjóri í stóru fyrirtæki, sem er þá endanlegt skotmark glæpamannsins,“ segir Anton í samtali við ViðskiptaMoggann í dag.
Anton þekkir nokkur dæmi úti í heimi þar sem þessi aðferð hefur verið notuð með „góðum“ árangri. Einnig er að hans sögn ítrekað ráðist gegn eldra fólki og öðrum viðkvæmum jaðarhópum.
Lesa má meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.