Ráðgjafarfyrirtækið Portwise fer hörðum orðum um skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Drewry vann fyrir Faxaflóahafnir um þróun Sundahafnar til framtíðar. Þeir segja þá niðurstöðu Drewry að það muni skila sér í aukinni hagræðingu og bættri þjónustu að hverfa frá samkeppni yfir í einokun ekki standast skoðun.
Í endurmati þeirra á mati Drewry kemur meðal annars fram að byggt sé á vafasömum forsendum og að matsþættir við val á ólíku rekstrarfyrirkomulagi endurspegli ekki markmið Faxaflóahafna. Þá er gagnrýnt að matsþættir séu ekki vigtaðir eftir mikilvægi og loks að stigakvarðinn sem notaður var við matið sé til þess fallinn að gefa skakka mynd.
Forsaga málsins er sú að ráðgjafar Drewry voru fengnir til að meta annars vegar rekstrarfyrirkomulag Sundahafnar til framtíðar og hins vegar fjárfestingar og þróun hafnarinnar til framtíðar. Hvað rekstrarfyrirkomulag varðar reka Eimskip og Samskip hvort sína aðstöðu í Sundahöfn, í samkeppni hvort við annað. Niðurstaða Drewry var að hagkvæmast væri fyrir Faxaflóahafnir að gera sérleyfissamning við einn rekstraraðila í Sundahöfn, og hverfa þannig frá núverandi fyrirkomulagi með samkeppni tveggja fyrirtækja. Sú niðurstaða kom forsvarsmönnum Eimskips spánskt fyrir sjónir og í kjölfarið óskaði félagið eftir því að ráðgjafar Portwise legðu mat sitt á skýrslu Drewry.
Morgunblaðið ræddi við dr. Yvo Saanen, framkvæmdastjóra og stofnanda Portwise, og Pim van Leeuwen ráðgjafa sem unnu skýrsluna fyrir Eimskip ásamt dr. Zack Lu. Þeir segja það rekstrarfyrirkomulag sem Drewry leggur til ekki til þess fallið að auka hagkvæmni og bæta þjónustu. „Það kom okkur mjög á óvart að sjá ráðgjafa sem er þekktur fyrir hagfræðilegar rannsóknir ráðleggja einokunarfyrirkomulag. Það þarf ekki djúpa hagfræðiþekkingu til að vita að einokun leiðir ekki til nokkurs góðs,“ segja þeir.
Drewry sé sömuleiðis á villigötum hvað fjárfestingar og þróun Sundahafnar varðar. „Faxaflóahafnir höfðu gert fjárfestingaráætlun sem okkur þykir mjög skynsamleg, en Drewry leggur aftur á móti til leið sem felur í sér miklar hafnarstækkanir sem okkur þætti mjög óráðlegt að fara í.“
Ráðgjafarnir segja Drewry hafa litið framhjá því að fyrirtæki í einokunarstöðu nýti yfirburði sína til þess að hámarka hagnað. „Við einokun geta fyrirtæki rukkað það verð sem þeim sýnist án þess að þurfa að veita góða þjónustu, enda stendur viðskiptavininum ekki annað til boða. Við mat Drewry skein sú ranghugmynd í gegn að einokunaraðilinn hefði einhvern sérstakan velvilja í garð Íslands. Hann myndi þannig gera allt til að þjónusta íslenska þjóð sem best, bæta skilvirkni og lækka kostnað þannig að Íslendingar fengju vörur sínar á lægra verði – sem dæmin sanna að er fjarstæðukennt.“
Að mati Portwise tók Drewry ekki til greina hversu öflugu rekstrarlíkani Eimskip og Samskip búa yfir. „Rekstrarlíkan félaganna byggist á samþættri aðfangakeðju sem nær yfir fraktflutninga, hafnarþjónustu, gámasvæði og vöruflutninga innanlands. Stóra alþjóðlega rekstraraðila dreymir um að komast á þann stað sem Eimskip og Samskip hafa þegar náð. Líkan þeirra býr yfir samlegð og skilvirkni sem skilar sér í lægra verði til íslenskra neytenda. Það að ætla að brjóta þessa keðju upp mun eyðileggja þá miklu samlegð og hagkvæmni sem náðst hefur.“