Ísland eftirbátur Norðurlandanna

Ísland fellur niður um eitt sæti á listanum.
Ísland fellur niður um eitt sæti á listanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfniúttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss og situr nú í 17. sæti af 67 árið 2024. Singapúr endurheimtir nú efsta sæti listans.

Í samantekt frá Viðskiptaráði kemur fram að undanfarinn áratug hafi samkeppnishæfni Íslands batnað hægt og bítandi, en fyrir tíu árum sat Ísland í 25. sæti. Litlar framfarir hafa þó orðið síðustu 2-3 ár og Ísland er ennþá eftirbátur annarra norrænna landa þegar kemur að samkeppnishæfni landa.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir í samtali við Morgunblaðið að síðastliðin 15 ár hafi Ísland verið eftirbátur Norðurlanda þegar kemur að samkeppnishæfni ríkja. Ef staðan er skoðuð að jafnaði rekum við lestina í öllum undirþáttum.

Gunnar Úlfarsson.
Gunnar Úlfarsson. mbl.is

„Við erum helst á eftir þeim í efnahagslegri stöðu sem snýr að alþjóðafjárfestingum, alþjóðaviðskiptum, innlendum efnahag og þess háttar. Skilvirkni hins opinbera mælist einnig lægri en annars staðar á Norðurlöndum og það er áhyggjuefni,“ segir Gunnar.

Þá væri að sögn Gunnars t.d. hægt að samræma regluverkið því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Þannig mætti stuðla að aukinni samkeppnishæfni og tryggja að leikreglur séu samræmdar milli markaða, sem liðkar fyrir viðskiptum milli ríkja.

Hann bætir við að stjórnvöld geti til dæmis náð ágætisárangri á sviði aukinnar samkeppni með því einu að ná tökum á ríkisfjármálum.

„Það myndi draga úr verðbólgu, hallarekstri og spennu í hagkerfinu sem myndi lækka vexti. Það myndi síðan stuðla að aukinni verðmætasköpun með bættu aðgengi að fjármagni. Menntakerfið er einnig grunnstoð samkeppnishæfni sem ekki má undanskilja. Stjórnvöld ættu að leggja ríka áherslu á menntakerfið en niðurstöður PISA-kannananna eru verulegt áhyggjuefni,“ segir Gunnar.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK