Hægt er að þrefalda virði fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar á næstu 12 mánuðum, að mati Halldórs Kristmannssonar, sem er í hópi stærstu hluthafa fyrirtæksins með um 4% eignarhlut. Hann skorar á stjórn fyrirtækisins að hefja eignasölu og endurskilgreina kjarnastarfsemi.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag bendir hann á að sala vefmiðla og útvarps, upplýsingatæknifyrirtækisins Endor og Stöðvar 2 geti skilað um eða yfir 10 milljörðum króna. Eftir standi þá Vodafone, verðmætasta eining fyrirtækisins.
Mikil tækifæri séu fólgin í því að sameina fjarskiptaþjónustu Vodafone við öflug fyrirtæki á markaði þar sem hægt sé að „böndla” tilboðum fyrir viðskiptavini á breiðari grunni. Nefnir hann sem dæmi Haga og Festi.
Í greininni segir hann virði Sýnar hafa helmingast eftir að nýir fjárfestahópar tóku við stjórn Sýnar fyrir tveimur árum. Með fullri virðingu fyrir því jákvæða sem hafi verið gert í rekstrinum hafi það engu skilað fyrir hluthafa. Hlutabréf Sýnar hafi lækkað um 30% síðan nýr forstjóri kynnti frekari hagræðingaraðgerðir í apríl. Vegferð stöðugra skipulagsbreytinga og niðurskurðar sé að hans mati fullreynd.
„Ég er að leggja það til að það sé ráðist í allsherjar stefnumótun. Hluthafar og stjórn horfist í augu við það að núverandi viðskiptamódel er ekki að ganga upp,” segir Halldór í samtali við mbl.is, spurður nánar út í hugmyndir sínar. „Það er að mínu mati ekki líklegt til að skapa réttláta verðlagningu á markaði. Þar af leiðandi þarf að endurskoða viðskiptamódelið og kjarnastarfsemina.”
Spurður kveðst hann telja áhuga vera fyrir hendi á markaðnum vegna kaupa á vefmiðlum og útvarpi Sýnar, Endor og Stöð 2. Áhugasamir aðilar hafi til að mynda tekið þátt í óformlegu söluferli vefmiðla og útvarps með aðstoð Kviku banka sem hófst síðasta haust.
Í kjölfarið samþykkti stjórn Sýnar í vor að hætta frekari skoðun á framtíðareignarhaldi á rekstrareiningunni, að því er sagði í tilkynningu.
„Ástæðan fyrir því að það gat ekki gengið upp er að mínu viti einfaldlega það að það var ekki hægt að slíta þessa starfsemi frá móðurfélaginu. Það var erfitt, þannig að þessu var aflýst í bili,” segir Halldór, sem telur enn vera meirihlutavilja meðal stærstu hluthafa og stjórnar Sýnar til að selja vefmiðlana og útvarpið. Áhugi sé jafnframt enn til staðar á meðal þeirra sem tóku þátt í óformlega söluferlinu.
„Það sem hefur gerst síðan þá er að þessir miðlar ganga talsvert betur en lagt var af stað með í þessu söluferli.”
Varðandi Stöð 2 telur hann Sýn ekki eiga að standa í sjónvarpsrekstri heldur eigi hann að vera í höndum þriðja aðila. Nefnir hann að framleiðslufyrirtæki sem þegar eru á markaði geti vel tekið við keflinu.
Hann kveðst nú þegar hafa átt samtal við áhugasama kaupendur að Endor og því gætu þau viðskipti gengið tiltölulega hratt fyrir sig ef ákveðið væri að stíga það skref.
Hvað varðar að sameina fjarskiptaþjónustu Vodafone við öflug fyrirtæki á markaði segir hann mikil viðskiptatækifæri fyrir hendi þar. Aðeins sé tímaspursmál hvenær Hagar og Festi horfi til þess að útvíkka starfsemi sína enn frekar og horfi til fjarskiptaþjónustu.
Auk Haga og Festi, sem gætu keypt hugsanlega Vodafone, nefnir hann þriðja fyrirtækið til sögunnar sem er að verða til upp úr samruna Samkaupa, Heimkaupa, Lyfjavers og Orkunnar.
„Ég get alveg séð fyrir mér að það fyrirtæki hafi áhuga á skráningu á hlutabréfamarkað og það gæti viljað ná skráningu á aðalmarkað, til dæmis með samruna við Sýn eða þann rekstur sem stæði eftir innan Sýnar.”
Spurður hvernig þróunin verður ef stjórnin er ekki tilbúin í þessar breytingar segir hann stjórnendur Sýnar hafa boðað miklar kostnaðarlækkanir á þessu ári, sem séu nauðsynlegar. Þegar þeirri vegferð verði lokið, væntanlega á þriðja ársfjórðungi, sé tímabært að stjórnin hugi að þessum tillögum.
„Á haustmánuðum held ég að félagið sé vel í stakk búið til að hefja þessa skoðun aftur. Að öðrum kosti gæti þetta alltaf komið til skoðunar á hluthafafundi, ef hluthafar myndu kjósa það,” svarar Halldór.
Hann bætir við: „Það er hægt að halda áfram á þessari vegferð eða það er hægt að fara í eignasölu ásamt því að hagræða í rekstri og þannig sé hægt að þrefalda virði hluthafa. Ég velti því fyrir mér hversu mörg ár það gæti tekið stjórnendur fyrirækisins að skapa slík verðmæti á áframhaldandi vegferð.”