Eimskip hefur birt skýrslu Portwise sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt tilkynningu Eimskips hafa ráðgjafar Portwise þegar kynnt niðurstöður skýrslunnar fyrir stjórnendum Faxaflóahafna.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að það að veita óháðum rekstraraðila einokunarstöðu við Sundahöfn myndi lækka þjónustustig og sveigjanleika í þjónustu við íslensk fyrirtæki í inn- og útflutningi, minnka samkeppnishæfni virðiskeðjunnar til og frá Íslandi ásamt því að vera til þess fallið að hækka kostnað neytenda til lengri tíma litið.
„Portwise var falið það verkefni af Eimskip að skoða niðurstöður úr skýrslu Drewry og leggja sjálfstætt og hlutlægt mat á þær út frá hagkvæmasta kosti fyrir Faxaflóahafnir og íslenskt samfélag. Í skýrslu Portwise kemur afdráttarlaust fram að núverandi fyrirkomulag hafnarþjónustu, þ.e. samþætting gámahafnar og vöruafgreiðslu í samkeppni, sé það ákjósanlegasta,“ segir í tilkynningu Eimskips.
Í viðtali við ráðgjafa Portwise í Morgunblaðinu í dag gera þeir margvíslegar athugasemdir við forsendur Drewry og aðferðarfræði við val á skipulagskostum. Þannig endurspegli matsþættir til að mynda ekki markmið Faxaflóahafna og þeir séu enn fremur ekki vegnir með tilliti til mikilvægis. Þá sé aðferðarfræðilega rangur kvarði notaður við stigagjöf sem er til þess fallinn að skekkja niðurstöður verulega.
Eimskip segist í tilkynningu sinni vonast til þess að skýrsla Portwise verði höfð til grundvallar í þeirri mikilvægu vinnu er varðar framtíðarskipulag Sundahafnar, enda sé um ríkt hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag að ræða.