Jón Björnsson hefur verið ráðinn forstjóri Veritas. Jón hefur víðtæka reynslu af fyrirtækjarekstri og umbreytingarverkefnum bæði á Íslandi og í Skandinavíu. Jón gegndi síðast starfi forstjóra Origo hf. en hefur áður gegnt forstjórastarfi hjá Festi og Krónunni, Orf Líftækni, Magasin du Nord og Högum. Jón situr m.a. í stjórnum Boozt.com, Origo Lausna og Dropp. Jón hefur jafnframt setið í stjórn Artasan, eins af fyrirtækjum Veritas, frá árinu 2023.
„Ég hlakka til að ganga til liðs við Veritas og taka þátt í frekari uppbyggingu á fyrirtækjum félagsins. Það eru uppbyggingarár fram undan og spennandi verkefni er snúa bæði að innviðum félaganna sem og frekari nýtingu tækifæra sem stafrænni heimur gefur okkur,“ er haft eftir Jóni í tilkynningu vegna ráðningarinnar, en hann mun hefja störf í lok ágúst.
„Það er mikill fengur að fá Jón til liðs við samstæðuna nú þegar stærsta þróunar- og fjárfestingaverkefni samstæðunnar er fram undan,“ er haft eftir Hreggviði Jónssyni stjórnarformanni. „Við Jón höfum átt farsælt samstarf í gegnum tíðina og ég tel að hans hæfni og reynsla sé að koma inn á góðum tíma og muni nýtast okkur afar vel.“
Þóranna Jónsdóttir sem tók tímabundið við starfi forstjóra síðastliðið haust mun gegna því þar til Jón tekur við í lok sumars. Hún mun sitja áfram í stjórn Veritas auk þess að sinna öðrum verkefnum fyrir samstæðuna.