Aukið atvinnuleysi fram undan

Hagsjá hagfræðildeildar Landsbankans telur líklegt að atvinnuleysi muni aukast á …
Hagsjá hagfræðildeildar Landsbankans telur líklegt að atvinnuleysi muni aukast á næstu misserum. mbl.is/Árni Sæberg

Atvinnuleysi hefur aukist frá síðasta sumri og líklegt er að það muni aukast áfram á næstu misserum vegna þétts peningalegs aðhalds. Atvinnuleysi var 3,3% að meðaltali í fyrra og er því spáð að það verði um 4% til ársins 2026.

Árstíðabundnar sveiflur og kólnun í hagkerfinu valda því að atvinnuleysi hefur hækkað lítillega miðað við fyrra ár. 

Þetta kemur fram í nýútgefinni Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Hreyfanleiki vinnuafls gæti útskýrt af hverju atvinnuleysi hefur ekki lækkað mikið þrátt fyrir spennu á vinnumarkaði. Hlutfall innflytjenda á vinnumarkaðnum hefur vaxið úr 10% árið 2010 í tæp 25% núna. Þetta þýðir að þegar eftirspurn eftir starfsfólki eykst, flytur fólk til landsins, en þegar efnahagurinn versnar, flytur aðflutt launafólk úr landi.

Möguleg kólnun í byggingariðnaði

Atvinnuleysi mældist 3,4% í maí og að meðaltali voru 6.041 manns atvinnulausir þann mánuðinn.

Atvinnulausum fækkaði mest í verslun, vöruflutningum og veitingaþjónustu, en fjölgaði í byggingariðnaði. Þetta gæti bent til kólnunar í greininni.

Þá jókst fjárfesting í íbúðarhúsnæði um tæp 16% á fyrsta fjórðungi ársins, þrátt fyrir að fjöldi íbúða í byggingu hafi minnkað síðasta árið.

Laun hækka minna

Allar líkur eru á að á þessu ári hækki laun mun minna á síðasta ári enda hafa nýir kjarasamningar minni hækkanir í för með sér en þeir síðustu. 

Nýbirt launavísitala sýnir 0,2% hækkun á milli mánaða í maí og hafa laun nú hækkað um 6,7% á síðustu tólf mánuðum, samanborið fyrir 9,6% í maí í fyrra. Hæst fór vísitala launa í 10,9% í september í fyrra.

Verðbólgan étur upp kaupmátt

Þrátt fyrir að laun landsmanna hafi hækkað ríflega á síðustu árum hefur kaupmáttur orðið verðbólgu að bráð. Þróun kaupmáttar launa segir til um launaþróun að teknu tilliti til verðbólgu og segir mun meira um þróun lífskjara en launaþróun ein og sér.

Stöðug kaupmáttaraukning hafði verið í landinu í 12 ár fram að miðju ári 2022 þegar kaupmáttur launa tók að dragast saman vegna ört vaxandi verðbólgu. Samfara hjaðnandi verðbólgu hefur kaupmáttur launa aukist líttilega flesta síðustu mánuði en dróst reyndar saman um 0,4% á milli mánaða í maí og hefur aðeins hækkað um 0,5% á síðustu tólf mánuðum.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafði minnkað á seinustu tveimur árum eftir langt vaxtarskeið, að Covid-árunum frádregnum, en jókst svo um tæpt 1% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Hann fæst með því að skoða ráðstöfunartekjur með tilliti til verðbólgu
Hann er nákvæmari leið til að meta kaupmátt landsmanna því þar er ekki aðeins tekið tillit til launa heldur einnig eignatekna, lífeyris og og félagslegra bóta. Til frádráttar koma svo gjöld á borð við skatta, trygginga- og eignagjöld.

Vaxtatekjur heimila meiri en vaxtagjöld

Síðustu mánuði hafa hækkandi vaxtagjöld dregið úr ráðstöfunartekjum heimila, á meðan vaxtatekjur þeirra hafa aukist. Nýlega urðu vaxtatekjur meiri en vaxtagjöld sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Hagstofan segir að vaxtatekjur hafi aukist um 36,1% á síðasta ári, en vaxtagjöld um 22,8%.

Háir vextir hafa áhrif á bæði tekjur og gjöld heimila. Auknar vaxtatekjur af sparifé hækka ráðstöfunartekjur, sérstaklega þar sem vextir á sparireikningum eru orðnir hærri en verðbólga. Á sama tíma rýra há vaxtagjöld ráðstöfunartekjur, sérstaklega hjá þeim sem eru með lán á breytilegum vöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK