Mikill samdráttur í bílasölu og sjávarútvegi

Sala á vélknúnum ökutækjum dróst mikið saman eða um 33%.
Sala á vélknúnum ökutækjum dróst mikið saman eða um 33%. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill samdráttur var í bílasölu og í sjávarútvegi frá mars til apríl 2024 í samanburði við sömu mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands en þar kemur fram að velta hafi aukist í flestum atvinnugreinum hagkerfisins á þessum tíma samanborið við sömu mánuði árið 2023.

Mjög dró úr veltu í helstu útflutningsgreinum landsins en verulegur samdráttur var í sjávarútvegi þar sem velta dróst saman um tæplega 20%. Ástæðuna má einkum rekja til minni afla en engar heimildir voru gefnar fyrir loðnuveiði á fyrsta ársfjórðungi 2024 sem svo aftur skýrði mikinn samdrátt í landsframleiðslu á fyrri hluta ársins.

Sala á vélknúnum ökutækjum dróst mikið saman eða um 33% (25% sé viðhald og viðgerðir ökutækja talin með) en við áramót var afnumin undanþága rafmagnsbifreiða frá virðisaukaskatti með tilsvarandi verðhækkunum á rafbílum og samdrætti í eftirspurn.

Aukningin var  almennt lítil og umfram verðbólgu (6,4%) í einungis helmingi atvinnugreina. Þannig var jákvæður raunvöxtur í fjórum af 14 stærstu atvinnugreinum landsins; fasteignaviðskiptum, byggingarstarfsemi, upplýsingatækni og fjarskiptum og að minna leyti í ferðaþjónustu en nokkuð hefur hægt á vexti hennar undanfarið. Lítill vöxtur og lækkanir voru hins vegar í öðrum greinum en velta dróst mest saman í bílasölu, sjávarútvegi og álframleiðslu.

Velta í fasteignastarfsemi jókst

Velta í fasteignastarfsemi hélt áfram að aukast eða um 17% og reyndist vera 26 milljarðar króna á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til leigu atvinnuhúsnæðis en þó var einnig veruleg aukning í fasteignamiðlun. Þá var svipaður vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 14% á milli ára og nokkuð jafnt í flestum undirflokkum greinarinnar.

Velta í ferðaþjónustu jókst um 7% miðað við sama tíma árið 2023 og mældist um 129 milljarðar króna. Þrátt fyrir það var vöxturinn ójafn og borinn uppi af fáum greinum. Mest jókst velta í bílaleigu (15%) og farþegaflutningum með flugi (13%).

Vöxtur hjá ferðaskrifstofum var í meðallagi eða um 8% en þar af var samdráttur upp á 3% í þjónustu tengdum ferðalögum innanlands. Lítill vöxtur var í öðrum geirum ferðaþjónustunnar, til dæmis aðeins 4% í veitingasölu og rekstri gististaða, og raunar töluverður samdráttur í sumum greinum eins og hjá baðstofum og gufuböðum (-18%) og í farþegaflutningum á sjó og landi (-12%). Heilt yfir dró því úr vexti ferðaþjónustunnar innanlands í mars til apríl.

Talnaefni:

Velta í öllum atvinnugreinum

Velta í einkenndi greinum ferðaþjónustu

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK