Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga fari upp í 5,9% í júlí og haldist út ágúst og lækki niður í 5,8% í september.
Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.
Í morgun var greint frá því að ársverðbólga mælist 5,8% í júní og lækki úr 6,2% milli mánaða.
Hagfræðideildin telur að biðin eftir vaxtalækkun hjá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lengjast enn frekar. Hún hafði spáð að hugsanlega í október gæti ferlið hafist.
Samkvæmt Hagsjánni höfðu reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og hótelgisting mest áhrif til hækkunar í mánuðinum, en verðlækkun á fötum, húsgögnum, bílum og bensíni hafði áhrif til lækkunar.
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,8% en hagfræðideild Landsbankansi hafði spáð 0,6% hækkun. Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 8% í mánuðinum, þó nokkuð umfram spá deildarinnar en hún hafði spáð um 3,4% hækkun.
Verð á hótelum og veitingastöðum hækkaði um 2,1% sem má að mestu leyti rekja til hækkunar á hótelgistingu um 17% á milli mánaða í júní.