Opna í fyrsta lagi í ágúst

Frá Kringlunni í dag. Enn er unnið að lagfæringum þar …
Frá Kringlunni í dag. Enn er unnið að lagfæringum þar innandyra eftir brunann sem upp kom laugardaginn 15. júní. mbl.is/Árni Sæberg

Verslanirnar Under Armour og Dressmann í Kringlunni verða opnaðar á næstu dögum, að því er segir á vef Kringlunnar. Forsvarsmenn verslananna segja þó að lengra sé þar til hægt verði að opna þær fyrir gestum verslunarmiðstöðvarinnar.

„Ef allt gengur mjög vel og framkvæmdirnar ganga hratt fyrir sig, þá vonandi náum við að opna í byrjun ágúst,“ segir Jón Torfi Jónsson, svæðisstjóri hjá Dressmann, í samtali við mbl.is.

Tjón varð í þrjátíu verslunum Kringlunnar vegna eldsvoða á þaki hússins 15. júní og á enn eftir að opna 18 verslanir vegna viðgerða.

Tjón vegna vatns og reyks

Að sögn Jóns ollu vatn og reykur mestu tjóni í verslun Dressmann. Segir hann vatn hafa valdið skemmdum á innréttingum og parketi en reykur lagst í fatnað sem ætlaður var til sölu.

„Við erum mjög heppin að við fáum alltaf vörur vikulega þannig að við erum enn þá að fá þær vörur,“ segir Jón og nefnir að fyrirtækið sem sendir Dressmann vörurnar geymi þær um þessar mundir.

„Það geymir þær fyrir okkur þangað til við erum klár til að opna,“ segir hann og bætir við: „Þannig að við ættum að geta opnað með ágætis magni af vörum.“

Under Armour opnar ekki í vikunni

Sara Úlfarsdóttir, verslunarstjóri Under Armour, segir að enn sé ekki vitað hvenær nákvæmlega verslunin verði opnuð á ný.

„Við gerum það nú ekki í þessari viku og örugglega ekki í næstu,“ segir hún en bætir við: „En við munum alveg opna aftur.“

„Lykt settist í allt“

Lýsir hún svipuðu tjóni í Under Armour og í Dressmann.

„Þetta voru mestmegnis vatnsskemmdir og lykt settist í allt,“ segir hún og nefnir að nú sé unnið að því að viðra innréttingu verslunarinnar. Einnig sé ýmislegt sem þurfi að laga, þrífa og mála.

„Mér skilst að það þurfi að rífa niður einhverja veggi og svona,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK