Guðbrandur Jóhannesson, lögmaður JSB dreifingar ehf., telur að sýknudómur félagsins geti haft fordæmisgildi fyrir aðra verktaka þrotabús Torgs ehf. sem gaf meðal annars út Fréttablaðið.
Þetta segir Guðbrandur í skriflegu svari til mbl.is.
Héraðsdómur kvað upp dóm í dag þar sem JSB dreifing ehf. var sýknað af riftunarkröfu þrotabús Torgs ehf. vegna greiðslna félagsins til JSB dreifingar ehf.
Taldi dómurinn að JSB dreifing ehf. hefði ekki haft vitneskju um ógjaldfærni Torgs ehf. og ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar þegar hún var gerð.
Guðbrandur vísar til þess að um sambærilegar greiðslur hafi verið að ræða til verktakanna og þá voru greiðslurnar mótteknar á svipuðum tíma eða degi áður en gjaldþrotabeiðnin var lögð fram í héraðsdóm.
Hann segir að að teknu tilliti til þessara atriða þá geti dómurinn haft fordæmisgildi.
Guðbrandur tekur fram að dóminum verði ekki áfrýjað en riftunarkrafan nam 1,2 milljónum króna og nær því ekki áfrýjunarfjárhæð sem lög um meðferð einkamála setja sem skilyrði. Fjárhæð verður að vera hærri en rúmar 1,3 milljónir króna.
Hann segir umbjóðanda sinn ánægðan með niðurstöðuna.