Tvær bílaleigur gjaldþrota það sem af er sumri

Háir vextir og dýrari bílar valda erfiðleikum í rekstri bílaleiga.
Háir vextir og dýrari bílar valda erfiðleikum í rekstri bílaleiga. mbl.is/Árni Sæberg

Bílaleigan Fara og Bílaleiga Reykjavíkur hafa báðar verið úrskurðaðar gjaldþrota. Háir vextir, auknar álögur og dýrari flotar valda erfiðleikum í rekstri og einhverjar bílaleigur íhuga að hætta starfsemi.

Bílaleiga Reykjavíkur var úrskuðuð gjalþrota í lok maí en þrotabú bílaleigunnar auglýsti fasteignir búsins til sölu í Morgunblaðinu í vikunni. Skiptastjórinn, Ólafur Eiríksson, segir að borið hafi á miklum áhuga á eignunum síðan. 

Þá hefur bílaleigan Blue Car Rental keypt heimasíður og lén sem áður tilheyrðu Bílaleigu Reykjavíkur.

Björguðu fríi margra

Magnús Sverrir Þorsteinsson, stjórnarformaður Blue Car Rental, staðfestir þetta í samtali við mbl.is og tekur jafnframt fram að bílaleigan hafi fylgt eftir þeim bókunum sem Bílaleigu Reykjavíkur höfðu borist fyrir gjaldþrotið og að viðskiptavinir leigunnar hafi fengið bíla frá Blue Car Rental.

„Við erum að einhverju leyti að bjarga fríi mjög margra en á móti kemur að það er alveg smá kostnaður á bak við það,“ segir Magnús.

Magnús segir að Blue Car Rental muni nýta sér bókunarsíður félagsins til framtíðar en telur ólíklegt að vörumerki Bílaleigu Reykjavíkur verði nýtt.

Aðeins tveimur vikum eftir gjaldþrot bílaleigunnar var önnur leiga, Fara í Reykjanesbæ, úrskurðuð gjaldþrota. Þetta staðfesti Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, skiptastjóri félagsins LOK0524 sem átti bílaleiguna, í samtali við mbl.is. 

Bílaleigur áhyggjufullar

Benedikt Helgason, fjármálastjóri bílaleigunnar Go ehf. og nefndarmaður í bílaleigunefnd Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að rekstrarumhverfi bílaleiga sé orðið erfitt og að einhverjar bílaleigur hugsi nú sinn gang.

„Maður heyrir af minni aðilum sem eru að hugsa sinn gang hvort þeir eigi að halda áfram með rekstur eða ekki, og jafnvel að reyna að hætta á meðan þeir geta. Á meðan þeir geta leyst upp fyrirtækið án þess að standa eftir með skuldir.“

Spurður hvort aðstandendur bílaleiga hafi almennt áhyggjur af ástandinu svarar hann því játandi og nefnir í því samhengi auknar álögur á borð við kílómetragjald, dýrari flota og aukna kröfu um rafbílavæðingu.

Þá segir Benedikt háa vexti einnig hrjá bílaleigur. 

„Verðið milli ára hafa ekki verið að hækka í takt við aukinn rekstrarkostnað, það þrengir að,“ segir Benedikt og bætir við:

„Flestir hafa nóg að gera held ég en það eru bara fleiri snúningar fyrir fyrir minna eða jafn mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK