Gervigreindin á að hjálpa við flugumferðarstjórn

Fulltrúar Tern Systems á EUROCONTROL-fundi í Brussel í júní. Urszula …
Fulltrúar Tern Systems á EUROCONTROL-fundi í Brussel í júní. Urszula Kasperska, Hólmfríður Elvarsdóttir og Gunnar Magnússon Ljósmynd/Aðsend

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems hefur hlotið styrk til þróunar á gervigreindarlausn sem á að aðstoðar flugumferðarstjóra.

Fyrirtækið, sem hefur í um 30 ár þróað hugbúnaðarlausnir fyrir stjórn flugumferðar, hefur hlotið styrk að upphæð 637.000 evrur (100 m. kr.)  úr SESAR rannóknar- og nýsköpunarsjóðnum, sem er hluti af Horizon styrkjasjóði Evrópusambandsins.

SESAR-verkefnið, sem stendur fyrir „Single European Sky ATM Research“, miðar að því að nútímavæða og samræma flugumferðarstjórnunarkerfi (ATM) um alla Evrópu og er ætlað að takast á við áskoranir sem fylgja aukinni flugumferð með því að þróa nýstárlega tækni og ferla fyrir skilvirkari og sjálfbærari flugsamgöngur.

Tern Systems hlýtur styrkinn til rannsókna og þróunar á sviði gervigreindar en markmið rannsóknarverkefnisins er að þróa gervigreindarlausn til að auka öryggi stjórnunar á flugumferð.

AWARE gefur ábendingar og leysir einföld verkefni

Verkefnið, sem hlotið hefur nafnið AWARE, gengur út á að þróa gervigreindarhugbúnað sem býr yfir ástandsvitund og aðstoðar flugumferðarstjórann með því að koma með tillögur að aðgerðum eða með því að leysa fyrir hann einföld verkefni.

Þetta á að gera flugumferðarstjóranum kleift að takast á við mjög flókin verkefni en á sama tíma minnka vinnuálag.

Samstarfsaðilar Tern Systems í rannsóknarverkefninu eru Háskólinn í Zagreb, Alþjóðasamband samtaka flugumferðarstjóra (IFATCA), Sænska flugleiðsögu­þjónustan (LFV), SLOT Consulting frá Ungverjalandi, Úkraínska flugleiðsögu­þjónustan (UkSATSE), Tækniháskólinn í Madríd, Háskólinn í Linz og Tækniháskólinn í Zurich.

Hugbúnaðarlausnir Tern Systems byggja á samstarfi við Isavia ANS sem sér um stjórnun flugumferðar yfir Íslandi en svæðið er eitt það víðfeðmasta og umferðamesta í heiminum í dag.

Hjá Tern Systems starfa yfir 80 manns og fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Íslandi og skrifstofur í Ungverjalandi og Póllandi.

Hólmfríður Elvarsdóttir, Urszula Kasperska og Gunnar Magnússon.
Hólmfríður Elvarsdóttir, Urszula Kasperska og Gunnar Magnússon. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK