Hildur Ýr Viðarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og formaður Húseigendafélagsins, telur hætt við að þær breytingar sem gerðar voru á húsaleigulögum undir lok þings og taka gildi 1. september séu ekki til þess fallnar að ná markmiðum frumvarpsins um húsnæðisöryggi og aukna réttarvernd leigjenda.
Þær ríku skyldur sem lagðar eru á herðar leigusölum geti haft neikvæð áhrif á framboð leiguhúsnæðis.
Hún hvetur leigusala til að kynna sér breytingarnar vel.
Hildi Ýri þykir sérstakt að Kærunefnd húsamála geti breytt leiguverði.
„Þegar aðilar hafa gert með sér leigusamning að þá eftir 12 mánuði getur annað hvort leigjandinn eða leigusalinn farið fram á breytingu á leiguverðinu. Ef að aðilar ná ekki saman þá er hægt að skjóta því til Kærunefndar húsamála sem á þá að ákveða verðið sé það ekki í samræmi við markaðsleiguverð.“
Spurð hvort það þýði að hið opinbera hyggist hlutast til um hvernig markaðurinn verðleggur sig, segist hún ekki átta sig alveg á því hvernig þetta verður í framkvæmd, en ljóst sé að það komi í hlut nefndarinnar að ákveða hver markaðsleiga sé.
Þegar aðilar ná ekki saman um verð sé ekki einfalt fyrir leigusala að falla frá samningi og semja við annan leigjanda.
„Það verður erfiðara að segja upp leigusamningum. Leigusali getur ekki sagt bara upp langtímasamningi ef honum hugnast það, nema það séu sérstakar ástæður fyrir hendi sem eru taldar upp í lögunum. Þannig að almennt þegar það er búið að gera langtíma leigusamning að þá getur leigusali ekki bara sagt: „Heyrðu, nei, ég ætla bara að segja upp leigusamningnum.“ Hann er fastur með leigusamninginn og það verð sem verður ákveðið, nema að það séu ástæður til staðar sem eru taldar upp í lögunum.“