Hlutabréf Play hríðlækka

Uppgjör félagsins verður birt í lok viðskiptadags á fimmtudaginn.
Uppgjör félagsins verður birt í lok viðskiptadags á fimmtudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutabréf flugfélagsins Play hafa hrunið um tæplega 18% í viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Hrun bréfanna verður í kjölfar þess að félagið tilkynnti í gær að afkomuspá félagsins fyrir þetta ár hefði verið felld úr gildi og útlit væri fyrir verri afkomu en spáð hafði verið fyrir um.

Fyrstu viðskipti dagsins voru á genginu 1,95 krónur, en það var lækkun upp á tæplega 19%. Hélt lækkunin áfram og náði hámarki í viðskiptum á genginu 1,9 krónur, en það þýddi lækkun upp á 20% frá dagslokagengi í gær sem var 2,4 krónur á hlut. Velta með bréfin nemur þó aðeins 23 milljónum króna.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play. mbl.is/Árni Sæberg

Vísbendingar um neikvæðan rekstrarhagnað

Síðan þá hefur gengið þokast hægt upp og voru síðustu viðskipti á genginu 1,97 krónur, eða sem nemur um 18% lækkun frá í gær.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær kom fram að vinna við árshlutareikning gæfi vísbendingar um að rekstrarhagnaður félagsins yrði ekki í kringum núll eins og áður hafði verið gefið út, heldur neikvæður. Þó var tekið fram að afkoman stefndi í að verða betri en á síðasta ári.

Var rekstrartap félagsins (EBIT) í fyrra 20,7 milljónir dala yfir árið í heild, eða sem nemur 2,9 milljörðum króna á núverandi gengi, og 17,3 milljóna dala rekstrartap á fyrri hluta ársins, en það nemur um 2,5 milljörðum króna á núverandi gengi.

Ástæða verri afkomu var í tilkynningunni sögð vera erfitt rekstrarumhverfi flugfélaga um þessar mundir og að ekki væri tilefni fyrir Play að veita frekari leiðsögn í formi afkomuspár fram á við eins og staðan væri.

Uppgjör félagsins verður birt í lok viðskiptadags á fimmtudaginn og verður uppgjörið kynnt af Einari Erni Ólafssyni forstjóra í kjölfarið í streymi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK