Segir að vélmenni muni brátt starfa hjá Tesla

Elon Musk forstjóri Tesla.
Elon Musk forstjóri Tesla. AFP/Michael M. Santiago

Elon Musk, forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, segir að fyrirtækið muni innan skamms hefja fjöldaframleiðslu á mannlegum vélmennum, og að þar verði þau tekin í notkun innan skamms, við framleiðslustörf í bílaverksmiðjum fyrirtækisins. 

Musk sagði í færslu á samfélagsmiðlinum X, að vélmennin yrðu í fyrstu aðeins tekin í gagnið innanhúss hjá Tesla, en að áætlað væri að hefja síðar sölu þeirra á almennum markaði árið 2026.

Vélmennið ber heitið Optimus, og bætist við ört vaxandi flóru mannlegra vélmenna, en fyrirtæki á borð við Honda, Boston Dynamics og Figure, hafa öll staðið að þróun slíkra véla sem einnig eru í mannslíki. Vélmenni Tesla yrði aftur á móti fyrsta slíka vélmennið sem kæmi á sölu á almennum markaði.

Mun kosta um 2,7 milljónir króna

Í frétt breska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að þegar fjöldaframleiðslu verði náð, muni kostnaður á stöku vélmenni vera um 20.000 bandaríkjadalir, en það eru rúmar 2,7 milljónir króna.

Megintilgangur þess nú er að aðstoða við framleiðslustörf og útrýma hættulegum, endurtekningargjörnum eða leiðinlegum störfum, sem þeim geta fylgt. Að sögn Musk er þó einnig möguleiki á að vélmennin aðstoði við heimilisstörf og fleiri dagleg verkefni, en í kynningarmyndböndum hefur vélmennið sést vökva blóm og raða eggjum í eggjabakka. 

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Musk lýsir því yfir að vélmennin verði tekin í gagnið hjá Tesla, en hann hafði áður sagt að það yrði gert í ár, en vegna tæknilegra örðugleika þurfti fyrirtækið að falla frá þeim áformum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK