Tekjur Emblu Medical námu 30,2 milljörðum

Vörumerkið Össur starfar nú undir hatti Emblu Medical.
Vörumerkið Össur starfar nú undir hatti Emblu Medical. Ljósmynd/Aðsend

Tekjur Emblu Medical, áður Össur, á öðrum ársfjórðungi 2024 námu 217 milljónum Bandaríkjadala, eða 30,2 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 9% vexti í staðbundinni mynt og 6% innri vexti.

Á öðrum ársfjórðungi var 6% innri vöxtur í sölu á stoðtækjum, 2% á spelkum og stuðningsvörum, og 9% í þjónustu við sjúklinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Emblu Medical. 

Rekstrarhagnaður samsvarar um 6,6 milljörðum króna 

Segir í tilkynningunni að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hafi numið 47 milljónum Bandaríkjadala. Samsvarar hagnaðurinn um 6,6 milljörðum íslenskra króna eða 22% af veltu á öðrum ársfjórðungi 2024 samanborið við 19% af veltu á öðrum ársfjórðungi 2023 og jókst hann um 26%.

Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 20 milljónum Bandaríkjadala, eða um 2,8 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 9% af veltu á öðrum ársfjórðungi 2024 samanborið við 8% af veltu á öðrum ársfjórðungi 2023 og jókst hann um 26%, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Uppfærð fjárhagsáætlun fyrir árið er 6-8% innri vöxtur, sem var áður 5-8%, og ~20% EBITDA framlegð að teknu tillit til einskiptisliða, sem áður voru 19-20%.

Kynntu tvær nýjar stoðtækjavörur 

Þá segir að Medicare, sem er opinbert sjúkratryggingarkerfi Bandaríkjanna, hafi gefið út endanlega tillögu á kerfisbreytingum sem munu koma til með að auka verulega aðgengi að hágæða stoðtækjum. Breytingarnar munu taka gildi 1. september 2024.

Eins voru kynntar tvær nýjar stoðtækjavörur í öðrum ársfjórðungi. Um er að ræða tvö hátæknihné Icon frá College Park og NAVii frá Össuri sem nýta gervigreind til að hámarka virkni og upplifun notandands.

Auk þess voru tilkynntar áætlanir, 16, júlí, um að sameina þann hluta rekstursins sem snýr að þjónustu við sjúklinga undir merkjum nýs vörumerkis ForMotion. 

Lykilstefna að fjárfesta í nýsköpun

„Annar ársfjórðungur er söluhæsti ársfjórðungur í sögu félagsins, þar sem sala nam 217 milljónum Bandaríkjadala (30,2 milljörðum íslenskra króna). Þá var söluvöxtur 9% í staðbundinni mynt, þar af 6% innri vöxtur, sem var drifinn áfram af góðum vexti í sölu á stoðtækjum og þjónustu við sjúklinga. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) í fjórðungnum nam 22% af veltu samanborið við 19% á sama fjórðungi síðasta árs,“ er haft eftir Sveini Sölvasyni, forstjóra Emblu Medical, í tilkynningunni og bætt við: 

„Það hefur verið lykilstef í stefnu fyrirtækisins að fjárfesta í nýsköpun með það að leiðarljósi að auka hreyfanleika okkar skjólstæðinga sem og að búa til hagkvæmar lausnir fyrir heilbrigðiskerfið. Það var því einstaklega ánægjulegt að sjá afrakstur hvoru tveggja í ársfjórðungnum, þar sem við annars vegar kynntum tvær nýjar hátæknivörur í flokki stoðtækja sem og að opinbera sjúkratryggingakerfið í Bandaríkjunum hefur aukið verulega aðgengi að hágæða stoðtækjum.

Okkur miðar jafnfram vel að vaxtarstefnu okkar „Growth’27“ sem við kynntum í byrjun síðasta árs en fjárhagsáætlun fyrir 2024 hefur verið uppfærð í 6-8% innri vöxtur (áður 5-8%) og ~20% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða (áður 19-20%).“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK