Mælingin veldur miklum vonbrigðum

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri SA.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri SA. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins (SA), segir í samtali við mbl.is að niðurstöður nýjustu verðbólgumælinga hafi valdið henni töluverðum vonbrigðum, en þar að auki sé ljóst að Seðlabankinn eigi afar vandasamt verk fyrir höndum.

„Seðlabankastjóri sagði í júní að til að vextir gætu lækkað þyrftu að koma fram skýr merki um kólnun í hagkerfinu en einnig að það þyrftu að vera skýr merki þess að verðbólgan væri að ganga niður. Því miður er nýjasta mælingin ekki skýrt merki þess,“ segir Anna og bætir við:

„Ég held engu að síðar að það sé mjög erfitt fyrir Seðlabankann að íhuga ekki að lækka stýrivexti þrátt fyrir að verðbólgan mælist ekki lægri, í ljósi þess að það eru mjög skýr merki um kólnun i hagkerfinu.“

Líkur á neikvæðum hagvexti

Dæmi um kólnunarmerki í hagkerfinu segir Anna vera, að mjög hafi hægst á einkaneyslu og fjárfestingu, auk þess sem horfur í ferðaþjónustu séu verri en áður hafi verið talið. Einhverjar líkur séu jafnvel á því að hagvöxtur verði neikvæður í ár, en eftir sem áður hefur verðbólga ekki lækkað í takt við forsendur seðlabankans. 

„Það tekur tíma fyrir vaxtabreytingar til að hafa áhrif í hagkerfinu og hættan er sú að ef vaxtalækkunarferlið fer of seint af stað þá geti lendingin í hagkerfinu orðið harðari en hún þyrfti að vera,“ segir Anna. 

Hún segir verðbólguhækkunina nú óneitanlega koma á óvart þar sem flestir greiningaraðilar hafi gert ráð fyrir að hún myndi standa í 5,9% en ekki 6,3% líkt og raunin varð. Þrátt fyrir það vonar Anna að hækkunin slái menn ekki út af laginu og vonar enn að verðbólgan muni halda áfram að hjaðna út árið,

„Aðstæður í hagkerfinu gefa okkur enn tilefni til þess að trúa því að langtímaspár geti gengið eftir,“ segir Anna. 

 Varasamt að draga of miklar ályktanir

Í verðbólgumælingu Hagstofu Íslands, kom fram að sumir liðir á borð við matvæli og flugfargjöld til útlanda hefðu hækkað meira en búist var við. 

Anna segir það þó ekki vera óvenjulegt, þar sem einstaka liðir geti sveiflast milli mælinga og því ekki endilega gagnlegt að draga of miklar ályktanir af einstaka verðbólgumælingum.

„Það eru alltaf atriði sem geta komið upp sem var erfitt að sjá fyrir, en mikilvægast sé að leitnin sé í rétta átt, og því fróðlegt að sjá hvort að þessar niðurstöður breyti framtíðarspám eitthvað,“ segir Anna að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK