Nokkuð bjartsýnn á einhverjar vaxtalækkanir á árinu

Líklegt þykir að aukin verðbólga seinki stýrivaxtalækkunum.
Líklegt þykir að aukin verðbólga seinki stýrivaxtalækkunum. Samsett mynd

„Við ætlum ekki að slá frekari vaxtalækkanir í haust alveg útaf borðinu, en nýjustu verðbólgumælingar hjálpa sannarlega ekki, og draga þar að auki veruluega úr því að vextir verði lækkaðir nú í ágúst.“

Þetta segir Birkir Thor Björnsson, hagfræðingur og verðbólgugreinandi hjá Íslandsbanka, í samtali við mbl.is, um viðbrögð við nýjustu verðbólgumælingum. Tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 6,3% og eykst um 0,5 pró­sentu­stig frá fyrri mánuði, en þá mæld­ist hún 5,8%.

Verðbólga mældist 6,7% í byrjun árs en þá gerði bjartsýnustu spár ráð fyrir því að verðbólga yrði komin niður í um 5% við lok þessa árs.

Þrátt fyrir að niðurstöður nú seinki hugsanlega vaxtalækkunum, segist Birkir Thor þó nokkuð bjartsýnn á að einhverjar stýrivaxtalækkanir verði á þessu ári, en þrjár stýrivaxtaákvarðanir eru eftir hjá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og telur hann mögulegt að til þeirra muni komi í október eða nóvember. Þær verði þó að öllum líkindum ekki meiri en um 0,25 prósentustig.

Matvöruverð og flugfargjöld hækka þvert á spár

„Ef nýjustu vísitölumælingar eru skoðaðar útfrá samhengi ferðaþjónustunnar kemur nokkuð á óvart hve mikil hækkunin var á flugfargjöld til útlanda, en hún nam um 16,5% og því töluvert umfram okkar spár,“ segir Birkir, en flugfargjöld voru sá liður við útreikninga á vísitölu neysluverðs sem hækkaði hvað mest.

Fleiri kostnaðarliðir höfðu áhrif á vísitöluna, m.a. hækkun á matvöruverði sem hækkaði um 1,1%, þvert á öll spálíkön. Birkir segir erfitt að útskýra hvað standi á bak við það, þar sem gengi krónunnar hafi haldist stöðugt og verðlag erlendis sömuleiðis.

Því megi hugsanlega rekja hækkunina til áhrifa kjarasamninga þó að ekkert sé hægt að fullyrða í þeim efnum að mati Birkis.

„Hið jákvæða er þó að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en spár gerðu ráð fyrir og var töluvert undir okkar áætlunum. Ný aðferð við mat á kostnaði við búseti í eigin húsnæði gefur því góða raun, en hún var tekin upp núna í júní. Talsverðar áhyggjur voru um að húsnæðisliðurinn yrði óþþægur ljár í þúfu og myndi leiða til meiri verðbólgu, en svo virðist ekki hafa orðið,“ segir Birkir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK