Forstjóri Play: Við erum ekki að fara neitt

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play. Bernhard Kristinn

„Það færi fráleitt að fara að hætta starfsemi miðað við alla þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað. [...] Við erum ekki að fara neitt.“

Þetta segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri og einn stærsti eigandi flugfélagsins Play, í nýjum hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Nokkuð hefur blásið um félagið að undanförnu þar sem afkoma þess hefur verið undir væntingum og félagið þurft að sækja sér aukið hlutafé. Um þetta er meðal annars fjallað í þættinum, en þar er Einar Örn spurður hreint út hvort að óhætt sé að bóka flug með félaginu á næstu mánuðum.

„Að sjálfsögðu,“ svarar Einar Örn að bragði og bendir á að rekstur félagsins hafi farið batnandi frá ári til árs.

Play mun þó aðlaga leiðarkerfi sitt að breyttum aðstæðum. Eins og fram kom í uppgjör félagsins fyrir 2. ársfjórðung, sem birt var í gær, mun félagið draga lítillega úr tíðni fluga til Bandaríkjanna í haust, og þar með draga úr umsvifum sínum á flugi yfir Atlantshafið. Þess í stað mun félagið einbeita sér í auknari mæli að flugi til og frá Íslandi.

Einar Örn fór nánar yfir stöðu og áætlanir félagsins í hlaðvarpþætti Þjóðmála sem birtur var í gærkvöldi.

„Við erum aðeins að draga úr umsvifum okkar á [Atlants]hafinu og ætlum fókusa ennþá meira á Íslendingana,“ segir Einar Örn í þættinum og bætir við að hann telji að félagið geti aukið markaðshlutdeild sína á þeim markaði.

„Sá sem er með lægri kostnað þar hann á að geta boðið lægri verð og fengið farþegana til sín,“ segir Einar Örn þegar hann fjallar nánar um þetta.

Spurður að því hvort það hafi verið mistök að hefja tengiflug yfir Atlantshafið, þ.e. flug á milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu í Keflavík, svarar Einar Örn því neitandi.

„Við getum ekki rekið heilt flugfélag bara á því að fljúga Íslendingum í sólina. Það er of lítið af farþegum. Við getum ekki verið með tíu vélar í rekstri bara í því flugi,“ segir Einar Örn og bætir við að margir áfangastaðir í Bandaríkjunum gangi vel en til þess þurfi þó tengiflugið að vera til staðar.

Segir fjölda flugfélaga ekki skipta öllu máli

Margir hafa velt því fyrir sér hvort að hægt sé að reka tvö flugfélög á Íslandi, þ.e. tvö félög með sambærilegt viðskiptamódel hvað tengiflug varðar. Spurður um það segir Einar Örn að frekar ætti að horfa til fjölda véla heldur en flugfélaga. Hann bendir á að um 45 flugvélar hafi heimahöfn á Íslandi í dag, sem sé minna en var fyrir heimsfaraldur.

„Ég er ekki viss um að það skipti öllu máli hversu mörg flugfélög starfræki þennan fjölda véla,“ segir Einar Örn.

Í þættinum er jafnframt fjallað erlenda samkeppni íslensku flugfélaganna, stöðu lággjaldaflugfélaga, launakostnað flugfélaga og deilur Play við ASÍ, samanburðinn við Wow air, stöðu ferðaþjónustunnar og margt fleira.

Einar Örn segir að mögulega hafi hann og aðrir stjórnendur félagsins verið of bjartsýnir í upphafi en tekur þó fram að ýmislegt hafi gengið á síðan félagið var sett á fót. Þar ber hæst innrás Rússa inn í Úkraínu sem hafði í för með sér mikla hækkun á eldsneytisverði auk þess sem heimsfaraldur hafi geisað lengur en búist var við. Þá nefnir hann einnig jarðhræringar á Reykjanesi. Hann segir þó að árið í ár gangi betur en árið í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK