Norska krónan fárveik

Seðlabanki Noregs fundar um stýrivexti í ágúst á svokölluðum millifundi …
Seðlabanki Noregs fundar um stýrivexti í ágúst á svokölluðum millifundi og telur yfirhagfræðingur Handelsbanken að sá fundur þurfi að senda skýr skilaboð út í hagkerfið. Ljósmynd/Wikipedia.org/Mahlum

Ein evra kostaði á fimmtudaginn tólf norskar krónur og hefur ekki kostað meira það sem af er árinu 2024 auk þess sem norska krónan hefur ekki verið veikari síðan við upphaf kórónuveirufaraldursins snemmárs 2020.

Kveður Olav Chen, forstöðumaður alþjóðavaxtasviðs fjármála- og eignastýringafyrirtækisins Storebrand, í samtali við norska viðskiptavefritið E24 það engum vafa undirorpið að veikist norska krónan enn frekar en þegar er orðið eigi Seðlabanki Noregs ekki annarra kosta völ en að hækka stýrivexti sína til að hemja verðbólgu og koma til móts við ástand krónunnar.

Þær ráðstafanir muni þó koma rækilega við kaunin á heimilum landsins sem eru með þeim skuldsettustu í heimi. Hætta sé á að frekari vaxtahækkanir leiði til kólnunar norsks hagkerfis og í framhaldinu atvinnuleysis. „Það gæti reynst dýrkeypt herkænska,“ segir Chen við E24.

Verði að senda út skýr skilaboð

Hann telur krónuna hreinlega þurfa að ná botninum, veikjast enn meir og eiga sér langa veikindadaga þar til rétt sé að hækka stýrivexti. „Ég er þeirrar skoðunar að við ættum bara að gleyma því að hækka vextina í allra næstu framtíð sem afleiðingu af genginu,“ segir forstöðumaðurinn.

Yfirhagfræðingur Handelsbanken, Marius Gonsholt Hov, tekur undir með Chen og segir örðugt að gefa út þá yfirlýsingu að Seðlabankinn skuli hækka stýrivexti. „Á millifundi peningastefnunefndar í ágúst verður Seðlabankinn að senda út skýr skilaboð um að ekki sé raunhæft að lækka vextina um sinn,“ segir Hov, bankinn þurfi að gæta þess að halda vaxtavæntinum almennings uppi.

„Hins vegar, eigi krónan áfram í vök að verjast munu verðbólguáskoranirnar samfara því verða slíkar að stýrivextirnir verða að hækka,“ segir yfirhagfræðingurinn ómyrkur í máli.

Handstýringin „dirty peg“

Chen veltir því upp að Seðlabankinn gæti einnig brugðið á það ráð sem kallast upp á ensku „dirty peg“ og felur í sér að handstýra gengi krónunnar inn á fyrirframákveðið bil sem ákvarði hve mikið hún megi styrkjast eða veikjast. Seðlabankinn grípi svo inn í veikist eða styrkist krónan út fyrir bilið. Þetta sé það sem hann kalli ódýra lausn stefni gengi norsku krónunnar í enn frekara óefni.

„Við þetta hverfur sveigjanleikinn að nokkru leyti þar sem stýringin er hvort tveggja erfið og umdeild, en horfi til neyðarástands vegna veikingar krónunnar kallar það einfaldlega á að hugsað sé í neyðarúrræðum og varaáætlun sé til staðar,“ segir Chen.

Bendir hann að lokum á að síðasta hrunskeið krónunnar, sem hófst eftir að verðbólgutölur júnímánaðar lágu fyrir, var vægara en reiknað hafði verið með. Þar með hafi markaðurinn byrjað að gera sér væntingar um að Seðlabankinn flýtti stýrivaxtalækkunum.

E24

TV

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK