Undrast viðbrögð Vilhjálms

Hagfræðingarnir Stefanía Ásbjörnsdóttir og Guðný Halldórsdóttir segja hærri verðbólgu en spár gerðu ráð fyrir vonbrigði, en láta þróunina þó ekki slá sig út af laginu. Í viðtali í Dagmálum undrast þær nokkuð öfgafull viðbrögð við þessari sveiflu og kalla eftir þolinmæði.

„Þetta voru ákveðin vonbrigði. Maður var að vonast eftir hagstæðari tölum en þetta gerðist svo sem fyrir nokkrum mánuðum síðan að verðbólgan fór upp fyrir það sem greiningaraðilar höfðu spáð og í næsta mánuði þar á eftir komu lægri tölur en fólk hafði almennt gert ráð fyrir, þannig að ég er dálítið að vonast eftir því og við höldum áfram í jákvæðnina,“ segir Stefanía en bætir við að viðbrögðin hafi þó verið eitthvað annað.

Hagfræðingarnir Guðný Halldórsdóttir og Stefanía Ásbjörnsdóttir.
Hagfræðingarnir Guðný Halldórsdóttir og Stefanía Ásbjörnsdóttir. Morgunblaðið/Dagmál

Ekki hægt að skipta um þjálfara

Spurð hvort þau hafi verið meiri en tilefni var til svarar Guðný játandi. „Það eru alltaf sömu persónur og leikendur sem hafa sig hvað mest frammi og svolítið erfitt að átta sig á því hvert fólk er að fara og hvað fólk vill. Einhver verkalýðsforkólfurinn var farinn að tala um að – var það ekki bara að við þyrftum að skipta um þjálfara?“ spyr hún. „Eða leikplan,“ skýtur Stefanía inn í.

„Ég túlka það sem svo að það ætti að skipta um seðlabankastjóra eða bara hætta að reyna, ég veit ekki alveg hvernig það þjónar hans umbjóðendum,“ segir Guðný.

Stefanía bendir á að nýbúið sé að skipa Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í fimm ár í viðbót, svo ekki verði skipt um þjálfarann, en leikplaninu megi breyta. Guðný er hugsi yfir því og veltir því fyrir sér hvort verkalýðsforkólfurinn, það er Vilhjálmur Birgisson, sé að biðja um að fallið verði frá því að ná verðbólgunni niður.

„Allavega með þessari aðferðarfræði, með hærri stýrivöxtum,“ segir Stefanía og heldur áfram:

„En mér finnst gleymast svolítið í því, ef við förum inn á þetta tæknilega, raunstýrivextirnir – uppáhalds – þeir eru 4% eða eitthvað svoleiðis og eru búnir að vera það temmilega stutt. Ég kalla eftir smá þolinmæði í þessu. Við höfum verið að hækka laun, hér er búið að vera töluvert af túristum og við höfum verið að fara erlendis. Það eru engin merki um það enn þá að það sé farið að þrengja mjög að heimilunum, en ég held að það geti komið mjög hratt í haust þegar vextirnir fara að losna á mörgum lánum,“ segir hún og bætir við að þá verði Seðlabankinn sennilega ekki lengi að skipta um stefnu. 

Átakanlegt að horfa í baksýnisspegilinn

„En hann hefur nú verið gagnrýndur fyrir að hafa flýtt sér aðeins of hægt þegar kom að því að hækka vextina aftur,“ segir Guðný. Stefanía tekur undir það en bendir á að það sé alltaf þægilegt að líta í baksýnisspegilinn.

Guðný er á öðru máli.

„Ég myndi segja samt átakanlegt að líta í þennan baksýnisspegil, af því að þegar vextir voru 4% þá var verðbólgan 8% og hagvöxtur 9% og bankinn var ekkert að flýta sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK