Arnar Már Magnússon, einn af stofnendum Play og fyrsti forstjóri flugfélagsins, hefur hætt störfum hjá fyrirtækinu.
Arnar starfaði sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs og tók við sem aðstoðarforstjóri félagsins fyrir tæplega þremur mánuðum.
Flugfélagið Play tilkynnti í dag um breytingar á skipulagi innan flugfélagsins er varða framkvæmdastjórn og stjórnendur.
Flugfélagið hefur tapað 4,2 milljörðum króna það sem af er ári en breytingarnar eru sagðar gerðar til þess að bæta reksturinn og taka gildi nú um mánaðamótin.
Andri Geir Eyjólfsson tekur við af Arnari sem nýr framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs en Andri hefur fimm ára reynslu af störfum fyrir Play.
Andri hefur á liðnu ári starfað sem varaframkvæmdastjóri rekstrarsviðs en á undan því hafði hann verið forstöðumaður tæknideildar í um fjögur ár.
„Andri Geir býr yfir mikilvægri reynslu af flugrekstri Play og hefur verið algjör lykilmaður í félaginu frá stofnun,“ er haft eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, sem tók við stöðu sinni um miðjan mars þegar Birgir Jónsson lét af störfum. Einar hafði þá verið stjórnarformaður félagsins.
Sem fyrr segir eru breytingarnar hluti af stærri kapli á borði stjórnar og framkvæmdastjórnar.
Georg Haraldsson framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs lætur meðal annars af störfum og Ramunas Kurkutis leysir hann af hólmi sem forstöðumaður upplýsingatæknisviðs. Kurkutis mun starfa frá Vilníus í Litháen.
„Ég vil þakka Arnari Má og Georg fyrir þeirra framlag á undanförnum árum og óska þeim alls hins besta,“ er enn fremur haft eftir Einari í tilkynningunni.