Booking.com fær metháa sekt

Samkeppniseftirlit Spánar segir að Booking.com hafi komið í veg fyrir …
Samkeppniseftirlit Spánar segir að Booking.com hafi komið í veg fyrir að önnur bókunarfyrirtæki á netinu gætu komist inn á markaðinn. AFP/Lionel Bonaventure

Samkeppniseftirlit Spánar hefur sektað gistibókunarfyrirtækið Booking.com um 413 milljónir evra, sem nemur um 62 milljörðum króna, fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína á síðustu fimm árum.

„Þessir viðskiptahættir hafa haft áhrif á hótel á Spáni og aðrar ferðaskrifstofur á netinu sem keppa við fyrirtækið. Skilmálar og skilyrði [Booking.com] skapa óréttlátt ójafnvægi í viðskiptasamningum við hótel á Spáni,“ segir í yfirlýsingu samkeppniseftirlitsins CNMC.

Þar segir einnig að Booking.com hafi komið í veg fyrir að önnur bókunarfyrirtæki á netinu gætu komist inn á markaðinn og stækkað, með því að hafa fleiri bókunarmöguleika og á betri staðsetningum heldur en samkeppnin.

Aldrei hærri sekt

Þetta er hæsta sekt sem eftirlitið hefur nokkurn tímann veitt en Spánn er næstvinsælasti gististaður Booking.com, á eftir Frakklandi.

Að sögn eftirlitsins var fyrirtækið með 70 til 90 prósenta markaðshlutdeild á Spáni á tímabilinu sem rannsakað var.

Booking.com segist vera „mjög ósammála“ niðurstöðum samkeppniseftirlitsins. Fyrirtækið ætli sér að áfrýja „fordæmalausri ákvörðun“ stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK