Bókfærður hagnaður eignarhaldsfélagsins Fram ehf. nam í fyrra um 22,3 milljörðum króna. Fram er móðurfélag ÍV fjárfestingafélags, sem á um 49% hlut í Ísfélaginu. Nær allur hagnaðurinn er til kominn eftir að Ísfélagið var skráð á markað undir lok síðasta árs og því metið á markaðsvirði í bókum Fram.
Fram er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjögurra sona hennar. Bókfærðar eignir félagsins námu í lok síðasta árs um 48 milljörðum króna, sem eru að mestu eignarhlutir í dóttur- og hlutdeildarfélögum, og eiginfjárhlutfall félagsins var um 99,6%. Fram ehf. átti áður tæplega 90% hlut í Ísfélagi Vestmannaeyja, sem sameinaðist Ramma hf. á Siglufirði um mitt síðasta ár og var í kjölfarið skráð sem fyrr segir í desember sl. Með því hefur fjölskylda Guðbjargar losað nokkuð um hlut sinn. Bókfært virði ÍV fjárfestinga í Ísfélaginu var í lok síðasta árs um 28,1 milljarður króna. Þá er bókfærður eignarhlutur í öðrum skráðum félögum um 481 milljón króna.
Í ársreikningi Fram segir að handbært fé sé um 10,6 milljarðar króna. Þá á félagið um 0,13% hlut í Hampiðjunni og tæplega 2% hlut í AC eignarhaldi hf.
Stjórn félagsins leggur til í ársreikningi að ekki verði greiddur arður til hlutafa á þessu ári.