Hluthafar bandaríska matvælaframleiðandans John Bean Technologies Corporation (JBT) samþykktu á hluthafafundi, sem fram fór fyrr í dag, útgáfu nýs hlutafjár í tengslum við valfrjálst tilboð félagsins í allt útistandandi hlutafé Marel.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í kvöld.
JBT gerði sem kunnugt er yfirtökutilboðið í Marel í nóvember sl. Í byrjun apríl náðist samkomulag milli JBT og Marel um helstu skilmála tilboðsins. Eins og komið hefur fram hafa hluthafar Marels val um það hvort þeir fái greitt í reiðufé, fái hlut í JBT eða hvort tveggja.
Eins og frá var greint í auglýsingu í Morgunblaðinu um miðjan júní mun hluthafakosning (meðal hluthafa Marels) um tilboðið hefjast á mánudag, 24. júní, og standa til 2. september nk. Verðið er sem fyrr 3,6 evrur á hlut.
Í fyrrnefndri tilkynningu kemur fram að vinnu JBT og Marel við að uppfylla önnur skilyrði tilboðsins miði vel. Félögin hafi skilað inn tilkynningum í viðeigandi löndum og landssvæðum um fyrirhugaða sameiningu og eiga nú í samskiptum við eftirlitsaðila um samþykki þeirra svo hægt verði að ganga frá viðskiptunum. JBT vinnur sömuleiðis að undirbúningi umsóknar um tvískráningu hlutabréfa félagsins í Kauphöllina hér á landi.