Virði hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um yfir 50% á síðastliðnu ári en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir þetta ekki raska svefni hans. Nefnir hann að jákvæð þróun sé á mörgum sviðum og að stærsti hluthafinn hafi mikla trú á viðskiptalíkani félagsins
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Þjóðmála.
„Ég hef gríðarlega trú á okkar fyrirtæki, Icelandair, og heilt yfir er mjög margt jákvætt í stöðu félagsins í dag. Við skiluðum hagnaði í fyrra eftir mikla uppbyggingu eftir Covid. Það var mikilvægur áfangi að ná því og vorum með hagnað núna á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður,“ sagði Bogi.
Gísli Freyr Valdórsson, þáttstjórnandi Þjóðmála, spurði Boga hvort að lækkunin að undanförnu trufli hann.
„Ég myndi ekki segja að þetta trufli mig, nei. Vegna þess að ég hef bara það mikla trú á framtíð félagsins og framtíðarmöguleikum félagsins og er algjörlega sannfærður um að við eigum eftir að láta verkin tala.
Þessi óbilandi trú mín á félaginu gerir það að verkum að auðvitað er það óþægilegt fyrir hluthafa – þar á meðal mig – að sjá hlutabréfaverðið fara niður eins og það hefur verið að gera. En trú mín á félaginu er svo sterk að þetta er ekki að trufla mín daglegu störf eða minn svefn,“ svarar Bogi.
Alþjóðlegi fjárfestingarsjóðurinn Bain Capital er stærsti hluthafinn í Icelandair, með rúmlega 17% hlut, og Bogi segir sjóðinn hafa mikla trú á Icelandair.
„Bain Capital er með fulltrúa í stjórn og við hittum stjórnina og erum í góðu sambandi við stjórnina mjög reglulega. Eins og ég nefndi áðan, skilaboðin þaðan eru að trúin á viðskiptalíkan félagsins er alveg jafn sterk og þeir komu inn upphaflega sumarið 2021,“ sagði Bogi.
Hann segir að félagið sjái jákvæða þróun á mörgum sviðum í rekstrinum.
„Við erum að sjá lækkun á einingarkostnaði núna í öðrum ársfjórðungi miðað við sama ársfjórðung í fyrra, þrátt fyrir verulegar kostnaðarhækkanir. Við erum að sjá stöðugleikann í rekstrinum, sem skiptir heilmiklu máli í flugrekstri. Á miklu betri stað núna en í fyrra og flest undanfarin ár,“ sagði hann.
Meðal annars nefndi hann að margt í innri rekstri félagsins væri á mjög góðum stað í samanburði við fyrri ár.
„Við erum með gríðarlega sterka lausafjárstöðu núna og erum þar af leiðandi í mjög sterkri stöðu til að bæði grípa tækifærin – sem eru fram undan að okkar mati – og líka að komast í gegnum svona skammtímasveiflur. Svo erum við náttúrulega með sterkt bakland,“ sagði hann og vísaði í Bain Capital.