Þórhallur Hákonarson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Sorpu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Sorpu.
Þar segir að Þórhallur hafi áður starfað sem sviðsstjóri fjármálasviðs hjá Lyfjastofnun í 16 ár, meðal annars sem staðgengill forstjóra.
Þar áður hafi Þórhallur starfað meðal annars við markaðsþróun hjá Össuri, sem verkefnastjóri útboða hjá Ríkiskaupum, auk þess sem hann starfaði sem fjármálastjóri Landhelgisgæslunnar.
Þá segir að Þórhallur hafi lokið viðskiptafræðinámi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2001 og M.Sc-gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands árið 2012.
„Ég er mjög spenntur fyrir Sorpu og verkefnum fyrirtækisins. Málaefni hringrásarhagkerfisins eru ein mikilvægustu mál samtímans og munu skipta lykilmáli í sjálfbærni og umhverfisvernd auk þess sem í þeim felast gríðarlega efnahagsleg tækifæri fyrir almenning og samfélagið allt,“ er haft eftir Þórhalli í fréttatilkynningunni.
Þórhallur hóf störf hjá Sorpu í byrjun sumars.