Hagvöxtur í Kína kemur niður á rómantík

Par að kyssast á Qixi-hátíðinni í Shenyang, Liaoning-héraði í norðaustur …
Par að kyssast á Qixi-hátíðinni í Shenyang, Liaoning-héraði í norðaustur Kína. STR

Kína er um þessar mundir þjakað af efnahagserfiðleikum, allt frá hægum neysluútgjöldum til viðvarandi fasteignahruns og vaxandi skuldakreppu. Hagkerfið veldur því að ungt fólk hefur ekki tíma né peninga fyrir rómantík og fjölskyldulíf.

Á góðæristímanum í Kína var það kunnugleg sjón að sjá ung pör haldandi á risastórum rósavöndum á meðan á Qixi-hátíðinni stóð, fornri hátíð sem fagnar ást og tryggð, sem haldin er í Shenyang, Liaoning-héraði í norðaustur Kína.

Þá flykktist fólk á samfélagsmiðla til að sýna glænýja iPhone síma og Lois Vuitton handtöskur sem makar þeirra gáfu þeim, auk þess sem það birti myndir af kvöldverðum á fínum veitingastöðum, á kínversku útgáfunni af Valentínusardeginum, sem venjulega ber upp í júlí eða ágúst ár hvert.

Engin rómantík í ár eins og fyrri ár

Þetta var á þeim tíma þegar hagvöxtur Kína var öfund heimsins. Qixi-hátíðin í ár, sem var haldin síðastliðinn laugardag, var allt önnur saga: Fólk fór á netið til að kvarta yfir skorti á gjöfum og hátíðaranda og vísaði í hægan efnahag og erfiðan vinnumarkað.

Eigendur nokkurra blómabúða hörmuðu skort á viðskiptavinum og birtu myndir af óseldum rósum í verslunum sínum. CNN segir frá en gat ekki staðfest kvartanir þeirra.

Aðrir skrifuðu að pör hefðu áður haft peninga til að eyða þegar næststærsta hagkerfi heims gekk vel.

Þessi samdráttur í útgjöldum sem nú á sér stað virðist vera í takt við „veika neysluþróun sem borið hefur á undanfarin tvö ár,“ sagði markaðsráðgjafinn Yeap Jun Rong frá viðskiptafyrirtækinu IG og bætti við að traust neytenda í Kína væri „í kringum sögulegt lágmark.“

Alfred Wu, dósent við háskóla í Singapúr, sagði að ungt fólk, sem áður eyddi miklum peningum á Qixi hátíðinni, ætti í erfiðleikum með að finna vinnu eins og sakir standa.

Kínverjar kvarta undan of mikilli vinnuskyldu

Þá hafa aðrir kvartað á samfélagsmiðlum um að þeir hafi engan tíma fyrir fjölskyldu af því að þeir þurfi að vinna svo mikið. Sum af stærstu fyrirtækjum Kína krefjast þess að starfsfólk þeirra vinni frá kl 9 til 21 sex daga vikunnar og sumir þurfa jafnvel að vinna alla daga vikunnar.

Það hvernig elskendur í Kína haga sér er í rauninni spurning alþjóðlegra fyrirtækja og stjórnvalda í Peking. Undanfarnar vikur hefur fjöldi vestrænna alþjóðafyrirtækja, allt frá snyrtivörurisanum L'Oreal til bílaframleiðandans Volkswagen, varað við veikri eftirspurn í Kína þar sem traust neytenda er enn í lægð.

Fækkun hjónabanda og lækkandi fæðingartíðni

Þessi daufa stemning hefur einnig áhrif á viðleitni kínverskra stjórnvalda til að hvetja til hjónabands sem leið til að takast á við lækkandi fæðingartíðni og öldrun íbúa. Fólksfækkun mun líklega draga úr hagvexti.

Á fyrri hluta þessa árs giftu sig aðeins 3,43 milljónir para, sem er aðeins helmingur þess sem skráður var á sama tímabili fyrir 10 árum, að sögn borgaramálaráðuneytisins.

Á árum áður var Qixi-hátíðin ábótasamt tækifæri fyrir kínversk og vestræn fyrirtæki að markaðssetja vörur sínar. En það hefur breyst. Alþjóðlegir forstjórar geta ekki lengur treyst á Kína sem traustan viðskiptaaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK