Para saman einstaklinga og störf

Helga Jóhanna Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Opus Futura, segir að stjórnendur hafi …
Helga Jóhanna Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Opus Futura, segir að stjórnendur hafi fundið fyrir því að erfitt sé að finna rétta starfsfólkið. Ljósmynd/Colourbox

Sprotafyrirtækið Opus Futura hefur smíðað ráðningarlausn sem breytir því hvernig fyrirtæki og einstaklingar tengjast.

Markmið lausnarinnar er að veita einstaklingum tækifæri til að parast við öll laus störf, óháð því hvort þeir eru í atvinnuleit eða ekki, án þess að þurfa að ganga í gegnum tímafrekt umsóknarferli.

Helga Jóhanna Oddsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Opus Futura, segir í samtali við Morgunblaðið að stjórnendur hafi undanfarin ár fundið fyrir að erfitt sé að finna rétta starfsfólkið.

Mikilvægt að breyta aðferðunum

Þá sýna rannsóknir að mikill meirihluti fólks á vinnumarkaði sæki ekki um störf, þótt það myndi ávallt skoða tækifærið ef það byðist. Mikilvægt sé að breyta aðferðunum við að finna rétta fólkið svo að þær verði í takt við nútímann.

„Við stjórnendur höfum verið að nota sömu aðferðir í áratugi og erum enn að handvinna allt of mikið fremst í ráðningarferlinu. Þá erum við stöðugt að kljást við eigin hlutdrægni við mat á umsóknum,“ segir Helga.

Lausnin virkar þannig að einstaklingar skrá sig í gagnagrunn og eru þar undir nafnleynd. Fyrirtækin skilgreina laus störf og lausnin parar einstaklinga sem passa við störfin. Einstaklingarnir fá boð um að þeir komi til greina í viðkomandi starf, fá ítarlegri upplýsingar um starfið og geta því tekið upplýsta ákvörðun um að aflétta nafnleynd.

Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Helga Jóhanna Oddsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Kröfur að breytast

Helga bætir við að kröfur atvinnulífsins séu að breytast, hefðbundin menntun hafi minna vægi en áður og meira sé horft í hvað einstaklingurinn getur og hvernig persónuleiki hans er.

Hún segir að Opus Futura bjóði upp á skimun fyrir þeim þáttum sem auki enn á gæði pörunarinnar.

„Við erum í samstarfi við alþjóðlegt matsfyrirtæki sem hefur þróað próf sem meta yfir 90 færniþætti auk persónuleikaprófa. Öllum mun standa til boða að taka próf, á meðan þeir eru enn nafnlausir, til að tryggja jafnræði í ráðningarferlinu. Þá verður einstaklingum boðið að staðfesta þekkingu sína, og auka gæði pörunarinnar við þau störf sem henta þeim og uppfylla kröfur þeirra,“ segir Helga.

Viðtökurnar fram úr björtustu vonum

Spurð hvernig hugmyndin hafi kviknað segir Helga að hún og vinkona hennar hafi lengi velt fyrir sér í störfum sínum sem mannauðsstjórar hvernig megi auka aðgengi að rétta fólkinu.

„Við færum tækifærin til einstaklinganna án þess að þeir þurfi að aflétta nafnleynd,“ segir Helga og bætir við að fólk stýri sjálft aðgengi að sínum upplýsingum.

Hún bætir við að viðtökurnar við lausninni hafi farið fram úr hennar björtustu vonum.

„Við höfum fengið Origo, Arion banka, Icelandair og Landsvirkjun til liðs við okkur sem fyrstu viðskiptavini og til að prófa lausnina. Mörg hundruð einstaklingar hafa þegar skráð sig í gagnagrunninn sem er ánægjulegt. Þetta er þjónusta sem fólk vill og hefur kallað eftir,“ segir Helga.

Um­fjöll­un­ina má finna í heild sinni í Morg­un­blaðinu í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK