Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins Þingvangs, segir fyrirtækið hafa ákveðið að fresta uppbyggingu 140 íbúða í Hafnarfirði vegna mikils vaxtakostnaðar en því bjóðist nú allt að 14% vextir.
Starfsmenn hans hafi þannig reiknað út að ef fyrirtækið hefði hafið þessar framkvæmdir fyrir hálfu ári þá myndi það í versta falli tapa sem svarar einni íbúð á tveggja til þriggja vikna fresti vegna vaxtakostnaðar frá ársbyrjun 2026.
Önnur afleiðing svo hás vaxtakostnaðar sé að íbúðirnar 380 á lóðinni verði að jafnaði einni milljón króna dýrari vegna vaxtanna sem safnast á lóðaverðið meðan fyrirtækið bíði eftir vaxtalækkun.
„Því er jafnvel spáð að vextir muni ekki lækka fyrr en um þarnæstu áramót. Það er versta hugsanlega útkoman fyrir Þingvang. Fyrirtækið hefur að jafnaði byggt og afhent um 200 íbúðir á ári en vegna þessa mun þeim fækka í örfáar íbúðir á næsta ári,“ segir Pálmar.
Húsin í Hjallahrauni verða í svokölluðu fimm mínútna hverfi. Með því er átt við að helsta þjónusta á að vera í fimm mínútna göngufjarlægð frá miðju hverfisins.
Frekari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.