Íhuga nú að brjóta Google upp

Google er eitt verðmætasta tæknifyrirtæki í heimi.
Google er eitt verðmætasta tæknifyrirtæki í heimi. AFP/Noah Berger

Bandaríska dómsmálaráðuneytið íhugar nú með hvaða hætti megi draga úr yfirburðum og einokunarstöðu tæknirisans Google, en samkvæmt heimildum The New York Times er raunhæfur möguleiki að fyrirtækið verði brotið upp.

Bandarískur alríkisdómari úrskurðaði fyrr í mánuðinum að markaðsstaða Google bryti gegn samkeppnislögum en með dómnum var Google sakfellt fyrir það að hafa með ólöglegum hætti viðhaldið yfirburðastöðu sinni yfir samkeppnisaðilum. 

Nokkrar leiðir koma til greina. Stjórnvöld skoða því nú m.a. á hvaða hátt væri hentugast að skipta fyrirtækinu upp. Þannig gætu þjónustur á borð við leitarvélina Chrome og stýrikerfið Android verið klofnar frá kjarna fyrirtækisins og gerðar að sjálfstæðum fyrirtækjum, að því er segir í frétt New York Times. 

Opna gagnagrunna fyrirtækisins

Einnig kemur til greina að þvinga Google til þess að veita samkeppnisaðilum aðgang að mikilvægum leitarupplýsingum úr Google-leitarvélinni, eða að notkunarsamningum við önnur stórfyrirtæki á borð við Apple verði rift en með þeim er neytendum gert erfitt fyrir  að velja aðrar leitarvélar en þær sem Google rekur.

Miklir hagsmunir eru því í húfi fyrir Google, en fyrirtækið var nýverið metið um 2.000 milljarða dala virði. Auglýsingar eru stærsta tekjulind fyrirtækisins, en á síðasta ári skiluðu auglýsingatekjur einar og sér um 175 milljörðum dala. 

Úrskurðir líkt og sá sem féll í máli Google geta haft gífurleg áhrif, en árið 2000 lagði alríkisdómari í Bandaríkjunum til að Microsoft yrði skipt upp vegna einokunartilburða. Þó var síðar fallið frá skiptingu fyrirtækisins, en helstu niðurstöður úrskurðarins voru staðfestar, sem dró verulega úr yfirburðastöðu Microsoft og skapaði sömuleiðis svigrúm fyrir mörg ný tæknifyrirtæki, þar á meðal Google.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK