Íslandsbanki spáir óbreyttum stýrivöxtum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fundar í næstu viku.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fundar í næstu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagfræðideild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum.

Þetta kemur fram á vef Íslandsbanka.

Stýrivextir standa í 9,25% eins og stendur og mun nefndin koma saman 21. ágúst til að taka ákvörðun.

Fram kemur að þrálát verðbólga, háar verðbólguvæntingar, viðvarandi þróttur í íbúðamarkaði og allsterkur vinnumarkaður muni trúlega vega þyngra en vísbendingar um kólnandi hagkerfi og minni eftirspurnarspennu á komandi fjórðungum.

Nefndin skoði gaumgæfilega að hefja lækkunarferli

„Við teljum hins vegar að peningastefnunefndin ætti að skoða það gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að hefja hægfara vaxtalækkunarferli á seinni árshelmingi, fremur en bíða eftir afgerandi merkjum um að hagkerfið hafi kólnað og verðbólguþrýstingur minnkað verulega,“ segir á vefnum.

Almennt sé talið heppilegra að peningastefna sé framsýn og breytingar á henni séu framkvæmdar jafnt og þétt, fremur en að stefnan byggi fyrst og fremst á baksýnisspeglinum og breytingar á henni séu snarpar, að því er segir á vefnum.

„Undantekning frá þessu er vitaskuld þegar ófyrirséðir skellir á borð við heimsfaraldur gerbreyta efnahagshorfum á stuttum tíma en ekkert slíkt virðist eðli máls samkvæmt vera á radarnum þessa dagana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK