Rekstrarhagnaður Alvotech ríflega 6 milljarðar

Róbert Wessmann, forstjóri Alvotech.
Róbert Wessmann, forstjóri Alvotech. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rekstrarhagnaður Alvotech eykst umtalsvert á fyrri helmingi árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Aðlöguð EBITDA framlegð var jákvæð í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Aðlöguð EBITDA framlegð á fyrri árshelmingi var 64 milljónir dala, tæplega níu milljarðar króna, en hún var neikvæð um 147 milljónir dala, rúmlega 20 milljarðar króna, á sama tíma í fyrra. Aðlöguð EBITDA framlegð á öðrum fjórðungi var 102 milljónir dala.

Bókfært tap félagsins eykst þó umtalsvert samanborið við sama tímabil í fyrra.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu Alvotech. 

Lægri kostnaður vegna aukinnar skilvirkni

Rekstrarhagnaður Alvotech var 43,4 milljónir dollara, ríflega 6 milljarðar króna, á fyrri helmingi ársins samanborið við tap upp á 189,1 milljón dollara á sama tímabili í fyrra, eða rúmlega 26 milljarðar.

Alvotech segir að rekja megi rekstrarhagnaðinn til mikillar tekjuaukningar og lægri kostnaðar vegna aukinnar skilvirkni og bætts skipulags.

Bókfært tap rúmlega 21 milljarður

Bókfært tap á fyrri helmingi ársins nam 153,5 milljónum dollara, eða rúmlega 21 milljarður króna. Á sama tímabili í fyrra var 86,9 milljóna dollara tap, eða rúmlega 12 milljarðar.

„Eins og áður greinir má rekja stærsta hluta bókfærðs taps á fyrri helmingi ársins til gangvirðisbreytinga á afleiðutengdum skuldum sem einkum leiða af hækkun á markaðsgengi hlutabréfa Alvotech, auk uppgjörs við eigendur breytanlegra skuldabréfa og endurfjármögnun skulda félagsins. Þessar gangvirðisbreytingar eru bókfærðar sem fjármagnsgjöld eins og áður segir,“ segir í tilkynningunni.

Heildartekjur tífaldast

Félagið skilar mettekjum á fyrri helmingi árs. Heildartekjur voru 236 milljónir dollara, tæplega 33 milljarðar, á fyrri helmingi ársins, sem er meira en tíföldun frá sama tímabili í fyrra.

Tekjur af vörusölu voru 65,9 milljónir dollara, rúmlega 9 milljarðar króna, á fyrri helmingi ársins og leyfisgreiðslur og aðrar tekjur voru 169,7 milljónir dollara, eða 23,7 milljarðar króna.

Fjármunatekjur Alcotech voru minni í ár en í fyrra. Fjármunatekjur voru 80,8 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins, 11,3 milljarðar króna, samanborið við 122,5 milljónir dollara, 17 milljarðar króna, á sama tíma í fyrra.

Uppgjörsfundur á morgun

„Þann 30. júní sl. átti félagið 10,9 milljónir dala í lausu fé, auk 25 milljóna dala í bundnu fé. Þá námu heildarskuldir félagsins 1.055,9 milljónum dala að meðtöldum 999,0 milljóna dala næstu árs afborgunum. Að teknu tilliti til endurfjármögnunar skulda sem gengið var frá í byrjun júlí, átti félagið pro forma 153 milljónir dala í lausu fé, auk 25 milljóna dala í bundnu fé og heildarskuldir félagsins pro forma voru 1.035 milljónir dala,“ segir í tilkynningunni.

Uppgjörsfundur verður haldinn í beinu streymi á morgun, föstudag, og hefst klukkan 12.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK