Baldvin fjárfestir í Heimum

Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Öldu Seafood í Hollandi.
Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Öldu Seafood í Hollandi. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Baldvin Þorsteinsson, forstjóri og eigandi Öldu Seafood í Hollandi, fjárfesti í dag fyrir tæpa tvo milljarða króna í fasteignafélaginu Heimum.

Þetta staðfestir Baldvin í samtali við Morgunblaðið. Nær öll veltan með bréf í Heimum í Kauphöllinni í dag var vegna kaupa Baldvins, en tilkynnt var um utanþingsviðskipti fyrir opnun markaða í morgun. Gengi félagsins hækkaði um 2,3% í viðskiptum dagsins.

Bréfin keypti Baldvin í gegnum fjárfestingafélag sitt, Túnstein ehf. Ætla má að eftir kaupin eigi Baldvin um 4% hlut í Heimum.

„Félagið býr yfir mjög góðu safni fasteigna og á að auki spennandi þróunareignir sem geta gefið félaginu góða ávöxtun sé vel staðið að uppbyggingunni,“ segir Baldvin spurður frekar um kaupin.

„Þar sem gengi bréfa félagsins eru töluvert undir bókfærðu virði eigin fjár þess þá fannst mér þetta áhugaverður fjárfestingarkostur á þessum tímapunkti,“ bætir Baldvin við.

Spurður um það hvort hann hyggist bjóða sig fram í stjórn eða reyna að hafa áhrif á rekstur Heima segir Baldvin að slíkar vangaveltur séu ekki tímabærar.

„Ég, eins og aðrir hluthafar, vil auðvitað hafa öflugt fólk í stjórn félagsins líkt og verið hefur. Ég hef ekki leitt hugann að því að bjóða mig fram sjálfur en mun leggja mitt af mörkum í samtali við aðra hluthafa í aðdraganda aðalfundar og styðja við það fólk sem þar er valið í stjórn,“ segir Baldvin.

„Ég hef trú á núverandi forsvarsmönnum Heima, annars hefði ég ekki fjárfest í félaginu.“

Markaðsvirði Heima er í dag tæpir 48 milljarðar króna, en gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um tæp 11% á þessu ári. Heimar, sem áður hét Reginn, er eitt fárra félaga sem hefur hækkað á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK