Kortavelta íslenskra heimila hefur aukist alla mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og samtals um 4% það sem af er ári. Virðast Íslendingar kaupa mun meira erlendis en í fyrra meðan neyslan hér heima er aðeins jafnari.
Eykst kortaveltan þrátt fyrir hátt vaxtastig og verðbólgu. Þetta má lesa úr uppfærðum gögnum Seðlabankans, en fyrri tölur bentu til þess að aukningin væri ekki nema 0,6% milli ára.
Þessar tölur gefa til kynna að mun meiri eftirspurnarkraftur sé í hagkerfinu en áður var talið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans, en þar er bent á að þessar tölur rími ágætlega við verðbólguþróun undanfarið. Erfiðlega hefur gengið að ná verðbólgunni niður eins og menn höfðu vonast til að myndi gerast og spá nú greiningaraðilar óbreyttum stýrivöxtum í vikunni, en þeir standa nú í 9,25%.
Segir í Hagsjánni að þessi aukna kortavelta kunni að vera merki um aukna einkaneyslu, en kortaveltan í júlí nam samtals 120 milljörðum og jókst um 3,1% milli ára. Þar af var aukin erlend velta upp á 9,8% á föstu gengi, en innlend kostavelta jókst um 1,2% á föstu verðlagi.
Seðlabankinn greindi frá endurskoðaðri aðferð við birtingu gagna um greiðslumiðlun, en það helgast af því að fyrirtækjum sem bjóða upp á greiðslumiðlun og greiðslulausnir hefur fjölgað undanfarið, ekki síst þegar íslensk fyrirtæki nýta sér þjónustu erlendra fyrirtækja sem bjóða slíkar lausnir.
Í Hagsjánni er bent á að kortaveltugögn eru meðal þeirra hagvísa sem peningastefnunefnd líti til við vaxtaákvörðun, enda gefi þær tölur góða vísbendingu um þróun einkaneyslu. „Þar sem neysla landsmanna reynist aukast af krafti þrátt fyrir hátt vaxtastig teljum við ólíklegt að peningastefnunefnd telji tímabært að slaka á aðhaldinu,“ segir í Hagsjánni.
Bent er á að erlenda kortaveltan núna sé 6,1% meiri en áður var talið, þrátt fyrir að utanlandsferðum Íslendinga hafi ekki fjölgað á milli ára, heldur fækkað um 0,9%. Dregur Landsbankinn þá ályktun að þetta verði líklega skýrt með aukinni kortaveltu Íslendinga hjá erlendum netverslunum.