Áfram tap hjá Köru Connect

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er einn stærsti eigandi Köru Connect.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er einn stærsti eigandi Köru Connect. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tap heilbrigðistæknifyrirtækisins Köru Connect nam í fyrra um 298 milljónum króna, samanborið við tap upp á um 117 milljónir króna árið áður.

Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi félagsins. Tap félagsins á liðnum sex árum nemur rúmlega hálfum milljarði króna.

Tekjur félagsins námu í fyrra rúmlega 141 milljón króna. Af þeim tekjum námu styrkir tæplega 76 milljónum króna, en þar af námu styrkir vegna laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki tæplega 44 milljónum króna, sem eru bókfærðir á síðasta ári en koma til greiðslu á þessu ári. Auk þess veitti ríkið fyrirtækinu sex milljóna króna markaðsstyrk á árinu.

Þjónustutekjur félagsins námu tæplega 66 milljónum króna og jukust um 27 milljónir króna á milli ára. Rekstrarkostnaður Köru Connect nam í fyrra um 280 milljónum króna og jókst um 60 milljónir króna á milli ára. Þar af jókst launakostnaður um rúmar 36 milljónir króna, en stöðugildi voru tæplega tíu á árinu. Tap fyrir skatta og fjármagnsliði nam tæplega 139 milljónum króna og jókst um 8,5 milljónir króna á milli ára. Eigið fé félagsins var rúmlega 780 milljónir króna í árslok síðasta árs.

Kara Connect er að mestum hluta í eigu Iðunnar framtakssjóðs, sem á tæplega 38% hlut, en sjóðurinn fjárfesti í félaginu fyrir um 850 milljónir króna vorið 2022. Þá eiga nýsköpunarsjóðirnir Crowberry og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (sem nú heitir Kría) ríflega 10% hlut hvor.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er framkvæmdastjóri og stofnandi Köru Connect, og á í gegnum nokkur félög rúmlega 27% hlut í félaginu ásamt eiginmanni sínum, Hallbirni Karlssyni. Kara Connect var valið sproti ársins í Nordic Startup Awards á Íslandi 2018. Þá hefur félagið einnig stefnt á starfsemi erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK